80 manns höfðu komið á bráðamóttökuna á efri hæðinni á Landspítalanum í Fossvogi fyrir klukkan 15 í dag. 90 prósent af þeim höfðu slasast í hálkunni á höfuðborgarsvæðinu sem hefur verið alveg ótrúlega lúmsk síðustu daga.
Bryndís Guðjónsdóttir, deildarstjóri bráða- og göngudeildar G3, segir í samtali við Nútímann að frá morgni til kvölds sé yfirleitt tekið á móti í kringum 110 manns á deildinni. 80 höfðu hins vegar komið fyrir klukkan 15 í dag og hafði hún varla séð annað eins.
„Þetta er alveg rosalegt,“ segir Bryndís og bætir við að mikið sé að gera hjá læknum og að röntgenlæknar hafi ekki undan. Hún segir brotin allskonar, beinbrot, höfuðhögg, skurðir og að allir aldurshópar séu að slasa sig.
Hún hvetur fólk til að salta hálkuna og setja mannbrodda undir skó. „Þetta er með ólíkindum — þetta er svo lúmskt,“ segir hún.