Bergur vill að Bjarni Ben rökstyðji af hverju Robert Downey fékk uppreist æru

Leikstjórinn Bergur Þór Ingólfsson, faðir stúlku sem lögmaðurinn Robert Downey (áður Róbert Árni Hreiðarsson) var dæmdur fyrir að brjóta gegn kynferðislega, kallar eftir rökstuðningi Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra fyrir því að Robert fékk uppreist æru. Þetta kemur fram í aðsendri grein eftir Berg í Fréttablaðinu í dag.

Hæstiréttur staðfesti á dögunum úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að svipting lögmannsréttinda Roberts skyldi felld niður en hann fékk uppreist æru í september síðastliðnum þegar Bjarni Benediktsson var starfandi dómsmálaráðherra. Í úrskurði sínum vísaði Hæstiréttur til þess að forseti hefði veitt Roberti uppreist æru í september að tillögu innanríkisráðherra.

Robert var dæmdur árið 2008 fyrir að brjóta kynferðislega gegn fjórum stúlkum á aldrinum 14 til 15 ára en á þeim tíma var Robert um sextugt. Allar stúlkurnar áttu við andlega eða félagslega efiðleika að stíða og var Roberti kunnugt um það.

Bergur spyr í grein sinni hvaða  valinkunnu einstaklingar settu nafn sitt við að maðurinn sé fullkomlega fær um að girnast ekki börn framar. Vottorð um góða hegðun frá tveimur „valinkunnum einstaklingum“ þarf að fylgja umsókn um uppreist æru.

„Það skal tekið fram að Róbert viðurkenndi aldrei við dóm að hann hefði gert nokkuð rangt. Þvert á móti fannst honum á sér brotið. Iðrun hefur hann aldrei sýnt og við efumst um að hana sé að finna í þeim skjölum sem dómsmálaráðuneytið lagði fram til upprisu ærunnar, séu þau til,“ segir Bergur í greininni og bætir við að hér sé pottur brotinn.

„Hér er allt á skakk og skjön. Hér virðist valdi misbeitt eða illa farið með. Þurfum við kannski að leggja Nýju stjórnarskrána fram fyrir fólkið í landinu svo forsetinn þurfi ekki að skrifa undir eitthvað sem hann veit ekki hvað er?“ spyr hann.

„Fyrst og fremst viljum við heyra rök núverandi forsætisráðherra fyrir því vali sínu að veita einmitt þessum manni uppreist æru en ekki öðrum. Og við hvetjum núverandi dómsmálaráðherra til að gera allt sem í hennar valdi stendur til að taka málið upp að nýju því það virðist hafa farið í gegn án þess að nokkur beri ábyrgð og enginn hafi unnið við það.“

Auglýsing

læk

Instagram