Birgir Ómar Jónsson lenti í alvarlegu flugeldaslysi þegar hann var 14 ára gamall eftir að hafa verið að fikta við að taka í sundur tertu með vini sínum. Birgir hlaut annars stigs bruna í andliti og á höndum í slysinu og var heppinn að missa ekki sjónina. Hann deildi sögu sinni í Facebook-færslu sem farið hefur víða en þar biðlar hann til fólks að fara varlega og nota hlífðargleraugu.
„Við vorum að taka í sundur vítistertu og ætluðum að nota púðrið úr henni til að búa til sprengjur þegar tertan sprakk í andlitið á mér,“ segir Birgir í samtali við Nútímann.
Birgir lá á sjúkrahúsi í tíu daga eftir slysið og var í fimm mánuði að jafna sig að fullu. „Ég er mjög heppinn að ég náði mér að fullu og það sést ekkert á mér í dag. Það eru því miður alls ekkert allir jafn heppnir og ég.“
Undanfarna daga hefur umræða sprottið upp í samfélaginu um hvort banna eigi flugelda eftir að stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason vakti máls á því á Twitter. Birgir er alls ekki hlynntur því að ganga svo langt.
„Ég held að það sé ekki nein lausn að banna flugelda. Ef maður fer rétt með þetta og notar hlífðargleraugu þá eiga svona slys ekki að gerast,“ segir Birgir að lokum.
Færslu Birgis í heild má sjá hér að neðan
Ef að börnin ykkar halda að það sé góð hugmynd að taka vítistertur og aðra flugelda í sundur til að búa til…
Posted by Birgir Ómar Jónsson on Fimmtudagur, 28. desember 2017