Tveggja ára barn svaf í bíl sem var rænt við leikskólann Rjúpnahæð í Kópavogi í gær. Starfsmaður leikskólans fann bílinn fyrir utan Krónuna skammt frá og segist hafa fundið á sér að bílnum yrði ekið þangað. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Sigurbjörg Hoffritz, starfsmaður á leikskólanum, segir að þegar maður passar börn sé maður með radarinn alls staðar. „Ég fór bara strax af stað og sagði við pabbann að ég skyldi finna barnið og það gerði ég,“ segir hún í Frétttablaðinu.
Eins og ég sagði við lögregluna þá læt ég ekkert stela barni af mínum leikskóla.
Ræninginn var handtekinn skammt frá bílnum en barnið svaf vært. „Barnið var bara steinsofandi. Hann svaf svo vært að ég var ekkert að vekja hann,“ segir Sigurbjörg í Fréttablaðinu.