Bjarki ökklabrotnaði og stofnaði síðu um mannshvörf á Íslandi: „Geirfinnur bjó í kjallaranum hjá afa“

Þegar gröfu- og tónlistarmaðurinn Bjarki Hólmgeir Hall var frá vinnu í fjóra mánuði í vetur eftir að hafa brotnað illa á ökla og fæti sat hann ekki auðum höndum heldur sökkti sér í lestur um horfið fólk á Íslandi og stofnaði því næst Facebook-síðu þar sem hann fjallar um mannshvörf.

Bjarki hefur lengi haft áhuga á dularfullum og dulrænum hlutum. Hann var aðeins um tíu ára gamall þegar tveir unglingsdrengir hurfu í Keflavík og fylgist grannt með umfjöllun fjölmiðla um málið. Í tengslum við það kom Guðmundar- og Geirfinnsmálið til umræðu á heiminu og þá kviknaði áhugi hans á mannshvörfum.

„Þá sagði mamma mér að þessi Geirfinnur hefði búið í kjallaranum hjá afa í Keflavík. Afi byggði Brekkubraut 15 í Keflavík, seldi svo neðri hæðina og Geirfinnur bjó þar þegar hann hvarf. Þá fékk ég þennan áhuga,“ segir Bjarki. Það voru ekki aðeins þessi mál sem vöktu áhuga hans því frændi hans, Hannes Pálsson, hvarf árið 1945 og velti Bjarki hvarfi hans mikið fyrir sér.

Bjarki hefur þegar birt margar umfjallanir á síðunni og aðeins fengið jákvæð viðbrögð. Hann segir að mannshvörf á Íslandi séu vissulega ekki öll jafn dularfull. Sum þeirra beri þess merki að einstaklingurinn hafi sjálfur ætlað að láta sig hverfa og svipt sig lífi en í öðrum málunum gæti verið um saknæmt afhæfi að ræða. Þannig ætlar hann að leggja meiri áherslu á þau síðarnefndu.

Nokkrar ábendingar hafa borist í gegnum tölvupóst eftir að Bjarki stofnaði síðuna og tók hann meðal annars viðtal við systur Sverris Kristinssonar sem hvarf árið 1972 og verður það birt á síðunni. Sjálfum finnst Bjarka hvörf Sverris frænda síns og Magnúsar Teitssonar vera meðal þeirra mannshvarfa á Íslandi sem séu mjög skrýtin og dularfull en lítið hafi aftur á móti verið fjallað um. Á síðu Bjarka má sjá umfjöllun um bæði málin. 

Bjarki vill nota tækifærið og óska eftir lista yfir öll mannshvörf á Íslandi. Hægt er að senda honum ábendingar í tengslum við mannshvörf á netfangið mannshvarf@gmail.com

Auglýsing

læk

Instagram