Auglýsing

Björgólfur Thor hjólar í Ólaf Ólafsson: „Hópur þjóðkunnra tækifærissinna setti saman Svika-hópinn“

Björgólfur Thor Bjórgólfsson fjárfestir fjallar á vefsíðu sinni um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um blekkingar Ólafs Ólafssonar þegar ríkið seldi hlut sinn í Búnaðarbankanum. Hann kallar S-hópinn, sem keypti bankann, þjóðkunna tækifærissinna og Svika-hóp. Hann segist vera reiðubúinn að mæta fyrir hvaða nefnd sem er og fara ítarlega yfir einkavæðingu Landsbankans.

„Einkavæðing beggja banka fór þá að miðast í öllu við þarfir þessa hóps og óskir, tímasetningar og framkvæmd öll fór eftir duttlungum hans,“ segir Björgólfur og bendir á kafla úr bók sinni, Billions to Bust and Back:

„Ég hefði átt að snúa baki við öllu saman þegar ég áttaði mig á því hvað var í gangi. Ég hefði átt að segja: „Það er skítalykt af þessu og það er hættulegt.“ Innsæið sagði þetta líka en ég hlustaði ekki af því að ég hélt að ég yrði útmálaður sem misheppnaður og tapsár ef ég færi að halda því fram að samningurinn væri fyrirfram ákveðinn. Þess í stað skrifaði ég bréf til Davíðs forsætisráðherra, Geirs Haarde fjármálaráðherra og einkavæðingarnefndar og mætti í fjölmiðlaviðtöl þar sem ég sagði að einkavæðingarferli beggja bankanna væru ógagnsæ og óskýr. Ég sagði þeim að einkavæðingarreglur í Búlgaríu væru skýrari en þær íslensku. En athugasemdirnar fengu enga athygli. Síðar fyrirskipaði þingið rannsókn en þar var farið á hundavaði yfir hlutina. Eftir hrunið kom í ljós að það sem ég hafði verið að segja átti rétt á sér.“

Hann segir að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser hafi verið lítill, þýskur einkabanki sem enginn þekkti til. „Og sá banki bara ómerkilegur leppur Ólafs Ólafssonar,“ segir Björgólfur.

„Svo vel þótti Ólafi Ólafssyni og mönnum hans til takast með blekkingarnar, að þeir voru reiðubúnir að endurtaka leikinn rúmum 5 árum síðar, haustið 2008, og þá með riddara á arabískum hesti, sem kom til bjargar á ögurstundu.“

Þarna er Björgólfur að vísa í Al-Thani-málið, sem Ólafur og viðskiptafélagar hans voru dæmdir fyrir í Hæstarétti.

Björgólfur segist alltaf hafa verið hlynntur ítarlegri rannsókn á einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans 2002 og 2003. „Og ítreka það nú. Það er löngu tímabært að sú saga verði öll sögð, svo þeir beri skömmina sem eiga hana og aðrir fái uppreist æru,“ segir hann.

„Og tímabært að stjórnmálamenn standi við yfirlýsingar sínar um gagnsæi. Ég er reiðubúinn að mæta fyrir hvaða nefnd sem er og fara ítarlega yfir einkavæðingu Landsbankans.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing