Björn Steinbekk þarf ekki að greiða Gísla Haukssyni, fyrrverandi forstjóra GAMMA, tæplega sjöhundruð þúsund krónur vegna tíu miða á leik Íslands og Frakklands á EM í fótbolt sem Gísli fékk aldrei í hendurnar.
Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem greint er frá á Vísi.
Gísli höfðaði mál á hendur Birni og krafðist endurgreiðslu en Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Björn. Í niðurstöðu dómsins segir að félagið Sónar Reykjavík ehf. hafi verið ábyrgt fyrir því að efna samninginn en ekki Björn. Gjaldþrotaskiptum á félaginu er lokið.
Sjá einnig: Miðasala Björns Steinbekk átti að bjarga slæmum fjárhag Sónar og greiða niður skuldir
Í frétt Vísis segir að Björn hafi fullyrt fyrir dómi þann 1. mars síðastliðinn að bróðurpartur allra seldra miða, tæplega 500 talsins, hafi þegar verið endurgreiddur, eða allt að 85 prósent þeirra.
Hann sagðist hafa millifært níu milljónir króna af reikningi Sónar Reykjavíkur inn á eigin reikning einum degi eftir að miðasalan fór úrskeiðis, til þess að tryggja það að allir fengju endurgreitt. Eftir það hafi lögmannsstofan Forum tekið við og séð um að endurgreiða milljónirnar níu.
Björn sagði einnig að ástæðan fyrir miðasölunni hefði verið slæm fjárhagsstaða tónlistarhátíðarinnar Sónar. Hann sagði að stjórnin hefði þarna séð tækifæri til að hagnast og tekið sameiginlega ákvörðun í von um að geta greitt niður skuldir.
Héraðsdómur féllst á að seljandi miðanna hafi verið Sónar Reykjavík ehf. Þrátt fyrir að Björn hafi auglýst miðana persónulega til sölu á sinni Facebook-síðu þá hafi mátt vera ljóst að kaupandi væri að kaupa miðana af Sónar Reykjavík þar sem peningurinn var lagður inn á reikning félagsins. Sónar Reykjavík var því seljandi miðana og félagið ábyrgt fyrir því að efna samninginn, þ.e. afhenda miðana eða endurgreiða fyrir þá væru þeir ekki afhendir.
Málið var upphaflega einnig höfðað gegn Sónar Reykjavík ehf. Í ljósi upplýsinga, sem fram komu við aðalmeðferð málsins um að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og skiptum hefði verið lokið, var því lýst yfir af hálfu Gísla að fallið væri frá öllum kröfum gegn félaginu.