Borðspil með virkum í athugasemdum í aðalhlutverki: „Stórfyndið og einfalt spil“

Óli Gneisti Sóleyjarson, þjóðfræðingur og bókasafns- og upplýsingafræðingur, vinnur nú að spilinu Kommentakerfið sem er byggt á athugasemdum virkra í athugasemdum við fréttir vefmiðla. Óli hyggst hópfjármagna spilið á vef Karolina Fund.

Óli segir á söfnunarsíðunni að Kommentakerfið sé stórfyndið og einfalt spil fyrir 3 til 10.

„Hver spilari fær 10 „komment“ á hendi. Í hverri umferð er einn ritstjóri sem leggur út „fyrirsögn“. Hinir spilararnir leggja síðan „komment“ í púkkið. Ritstjórinn velur kommentið sem honum þótti skemmtilegast í samhenginu og spilarinn sem lagði það út fær stig,“ segir hann.

Hugmyndin kviknaði þegar Óla mistókst að finna leið til að þýða spilið Cards Against Humanity. „Það bara virkar ekki sérstaklega vel á íslensku,“ segir hann.

Í kjölfarið datt mér í hug að nota grunnhugmyndina sem Cards byggir á og setja það upp sem kommentakerfi á netmiðli. Prufuspilun staðfesti að þetta yrði líklega fyndnasta spil sem hefur verið búið til á íslensku.

Óli segir á söfnunarsíðunni að langflest kommentin séu byggð á raunverulegum athugasemdum frá íslenskum netverjum.

„Þannig fær maður þá raunveruleikatilfinningu sem fylgir óstjórnlegri reiði, stafsetningarvillum og handahófskenndri notkun á greinarmerkjum,“ segir hann.

„Þó er rétt að nefna að jafnvel eðlilegustu athugasemdir geta orðið stórfyndnar þegar þær eru settar í rangt samhengi.“

Smelltu hér til að fá nánari upplýsingar en hér má sjá Óla útskýra spilið.

Auglýsing

læk

Instagram