Borgarbókasafnið hafnar bókum vegna grófra kynlífslýsinga: „Smá sjokk“

Auglýsing

Borgarbókasafnið hafnaði bókum sem Samtökin 78 gáfu safninu á dögunum á þeim forsendum að kynlífslýsingarnar þóttu of grófar. Rithöfundur gagnrýnir þessa ákvörðun og segist ekki hafa búist við þessu. Þetta kemur fram á vefnum Gay Iceland.

Rithöfundurinn Sigríður Jóhanna Valdimarsdóttir hefur skrifað þrjár rómantískar skáldsögur og nokkrar smásögur undir listamannanafninu Erica Pike. Borgarbókasafnið hafnaði öllum bókunum hennar nema einni. Ástæðan sem var gefin: Of grófar kynlífslýsingar.

„Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að skrifa mildari kynlífslýsingar í framtíðinni eða bara sleppa því alveg svo að bækurnar mínar verði í boði fyrir íslenska homma í bókasöfnum landsins,“ segir Sigríður í samtali við Gay Iceland.

En ég hef engan áhuga á því að ritskoða mig þannig. Sumar sögur kalla á ákaft kynlíf og aðrar ekki.

Sigríður segir í viðtali við Gay Iceland að viðhorf Borgarbókasafnsins komi sér á óvart. „Ég bjóst ekki við þessu þar sem við erum nú þekkt fyrir að vera svo opin hérna á Íslandi. Þannig að þetta var smá sjokk,“ segir hún.

Auglýsing

„Það fyndna er að íhaldssömum fylkjum í Bandaríkjunum eru hinsegin-erótískar sögur í boði en á Íslandi þykja þær óviðeigandi.“

Að sögn Sigríðar var henni bent á að stefna Borgarbókasafnsins sé að hafna öllum bókum sem snúast um grófar kynlífslýsingar, hvort sem þær eru hinsegin eða ekki. „Þannig að þetta kemur ekki út eins og um fordóma sé að ræða,“ segir hún.

Hún bendir á að engar athugasemdir séu gerðar við ofbeldi í bókum. „Börn að drepa hvert annað eins og í Hunger Games eða listin að myrða eins og í Dexter, rómantískar sögur með miklu valdaójafnvægi eins og í Fifty Shades of Grey og meira að segja ástarsamband fullorðins manns og unglingsstúlku eins og í Lolitu,“ segir Sigríður um bækur sem eru í boði á Borgarbókasafninu.

Bækur Sigríðar voru á meðal 1.400 bóka sem samtökin 78 gáfu Borgarbókasafninu þegar þau fluttu á Suðurgötu 3 í Reykjavík. Bókasafnið hafnaði einum þriðja bókanna. Stór hluti bókanna sem var hafnað flokkast sem hinseginrómantík og þóttu of grófar.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram