Nýtt og umdeilt frumvarp heilbrigðisráðuneytisins, sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda, hefur vakið hörð viðbrögð almennings – sérstaklega meðal þeirra sem nota rafrettur og nikótínpúða. Frumvarpið gengur út á að sameina öll ákvæði um tóbaks- og nikótínvörur í eina heildarlöggjöf og herða verulega skilyrði um aðgengi, bragð og birtingu.
Engin bragðefni. Engin netverslun. Engar litríkar umbúðir.
Markmiðið samkvæmt ráðuneytinu er að vernda ungmenni. En gagnrýnendur segja að fórnarlambið verði frelsi fullorðins fólks til að velja sína eigin leið – oft til að hætta að reykja.
„Ætlar ríkið í alvörunni að banna bragðefni fyrir fullorðna einstaklinga með þeim rökum að það höfði til barna?“ spyr einn þeirra sem sent hefur inn umsögn. Og hann er ekki einn. Frá og með deginum í dag hafa 148 umsagnir borist og stór hluti þeirra gagnrýnir frumvarpið harðlega.
Eins og lögin standa í dag eru nikótínvörur aðeins seldar í sérverslunum með 18 ára aldurstakmörk og strangri skilríkjaskyldu. Samt ætlar hið opinbera að slá saman tóbaks- og nikótínvörum í eina heild og meðhöndla þær eins, þrátt fyrir að nikótínvörur eins og rafrettur séu skaðaminnkun fyrir marga fyrrum reykingamenn.
„Ég hætti að reykja með hjálp nikótínpúða. Nú ætla stjórnvöld að gera þá óaðgengilega. Á ég að byrja að reykja aftur?“ spyr annar.
„Af hverju mega börn ekki sjá litríkar nikótínvörur en sjá fullt af „sætum og ferskum“ vínum með myndskreytingum í Vínbúðinni?“ spyr sá þriðji – og margir taka undir það.
Forræðishyggjan á sér engin mörk
Sérstaka athygli vekur að ráðuneytið vill banna netsölu, krefjast leyfis fyrir framleiðslu og setja strangar reglur um umbúðir – allt undir formerkjum lýðheilsu. En gagnrýnendur sjá í þessu skýrt dæmi um forræðishyggju: stjórnvöld sem ákveða fyrir einstaklinginn hvað honum „sé fyrir bestu“.
„Það þarf að vernda börn – en það er hægt án þess að flækja líf fullorðinna sem vilja hætta að reykja með skaðaminni valkostum,“ segir einn umsagnaraðili.
Á meðan ráðuneytið boðar einsleitni og bragðleysi með lagasetningu, krefjast sífellt fleiri umræðu um valfrelsi og skynsemi. Frumvarpið er opið til umsagnar til 2. júlí og getur hver sem er sent inn sína skoðun í samráðsgátt stjórnvalda. Þangað til stendur spurningin eftir…á að vernda börnin – eða umbylta lífi fullorðinna í leiðinni? Er ekki hægt að vernda börnin og rétt fullorðinna til þess að ráða sér sjálft?
Viltu tjá þig um frumvarpið? Þú getur gert það með því að smella hér!