Það er óhætt að segja að nóttin hafi verið fremur erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynnt var um fleiri en eina líkamsárás og þá var bílrán framið í Kópavogi.
Veist var að lögreglumönnum í heimahúsi í Hraunbæ í gærkvöldi eftir að lögreglu hafði borist tilkynning um líkamsárás á staðnum, Tveir menn voru handteknir, en lögregla þurfti að beita piparúða og kylfu til að yfirbuga þá.
Um klukkan átta í gærkvöldi var tilkynnt bílrán í Kópavogi. Ökumanni hafði þá verið kippt út úr bílnum, hann skilinn eftir og bílnum ekið á brott. Ræninginn sem var undir áhrifum fíkniefna var stöðvaður fimm mínútum síðar.
Hálf fjögur var stúlka slegin í andlitið með glasi á skemmtistað í Kópavogi. Tennur brotnuðu í henni við höggið. Lögregla hafði hendur í hári gerenda á staðnum.
Rétt fyrir klukkan fjögur báðu dyraverðir á bar í miðbænum um aðstoð vegna tveggja manna sem höfðu veist að þeim. Lögregla flutti þá á lögreglustöðina á Hverfisgötu til skýrslutöku.