Corona á skilorði eftir skort í allt sumar

Mexíkóski bjórinn Corona hefur verið ófáanlegur á Íslandi í sumar og hafa þau sem vilja lime sneið út í bjórinn sinn klórað sér í höfðinu yfir skortinum. Heimildir Nútímans herma að Vífilfelli, sem flytur Corona inn, hafi borist margar kvartanir vegna þessa en skorturinn hefur ekki aðeins verið hér á landi, heldur víða um heim og sérstaklega á meginlandi Evrópu.

Hreiðar Þór Jónsson hjá Vífilfelli staðfestir að Corona hafi verið uppseldur hér á landi frá því í maí. Hann segir skýringuna vera að glerskortur hafi plagað framleiðanda bjórsins á fyrri hluta ársins, en Corona er aðeins seldur í gleri hér á landi. Corona sérframleiðir flöskurnar og eru merkingarnar málaðar beint á glerið en ekki límdar á.

Hreiðar bætir við að bjórinn eigi sér tryggan aðdáendahóp hér á landi og staðfestir einnig að hópurinn hafi tekið skortinum illa.

„Ég get róað þá með því að við erum sem betur fer að fá nýja sendingu loksins núna en vegna þess hvernig reglur ÁTVR virka þá mun varan ekki fá fulla dreifingu til að byrja með. Vörur sem eru ófáanlegar í ákveðinn tíma detta sjálfkrafa úr vöruvali Vínbúðanna og þurfa að vinna sér aftur inn sitt pláss í hillunum. Þannig virka bara reglurnar.“

Hann gerir því ráð fyrir að það taki töluverðan tíma að fá dreifingu í allar Vínbúðirnar. „Við þurftum samt að sækja aftur um reynslusölu fyrir Corona og það er hætt við því að aðdáendur þurfi að fara á fleiri en einn stað til að finna hann til að byrja með,“ segir Hreiðar. „Hann fer bara í fjórar búðir á meðan hann er á reynslu hjá ÁTVR eða Kringluna, Heiðrúnu, Skútuvog og Hafnarfjörð.“

Auglýsing

læk

Instagram