Damien Rice kaupir lífrænt í miðbænum

Írski tónlistarmaðurinn Damien Rice var á ferðinni í miðbæ Reykjavíkur í hádeginu í dag. Hann var einn á ferð og sást meðal annars á bændamarkaðnum Frú Laugu við Óðinsgötu en þar er boðið upp á nýjar, lífrænar vörur.

Damien Rice kom hingað til lands á dögunum og kynnti nýja plötu sína fyrir blaðamönnum og bransafólki á tónleikum í hljóðverinu Sundlauginni í Mosfellsbæ í síðustu viku. Þetta kom fram á Vísi.

Platan, sem kallast My Favorite Faded Fantasy, var unnin að miklu leyti hér á landi og kemur út 3. nóvember. Platan er sú fyrsta sem Rice sendir frá sér í átta ár en hann sendi síðast frá sér plötuna 9 árið 2006. Fyrsta plata Damien RIce, O, kom út árið 2002 og hefur selst í meira en milljón eintökum um allan heim.

Á Vísi er sagt frá skemmtilegri uppákomu á tónleikum Rice í Sundlauginni:

Tónleikagestir vissu síðan varla hvaðan á þá stóð veðrið þegar að lokalaginu Trusty and True kom en þá hófu meðlimir Bartóna, karlakórs Kaffibarsins, upp raust sína og sungu með fullum hálsi. Damien réð þá með leynd til að blanda sér meðal gestanna og láta sem ekkert væri fyrr en að lokalaginu kom. Hann lét ekki einu sinni umboðsmann sinn vita af gjörningnum, sem sló vitanlega í gegn.

Auglýsing

læk

Instagram