DJ Dóra Júlía sendir frá sér sitt fyrsta lag: „Alltaf verið að mata mann á því hvernig hlutirnir eiga að vera”

Plötusnúðurinn Dóra Júlía Agnarsdóttir gefur út sitt fyrsta lag á miðnætti í kvöld undir listamannsnafninu J’Adora í samstarfi við Rok Records og Pálma Ragnar Ásgeirsson.

Dóra segir í samtali við Nútímann að hún hafi orðið spennt fyrir laginu þegar hún heyrði það fyrst og þá hafi henni dottið í hug að fara lengra með það og skapa ákveðið þema í kringum það.

„Ég fékk svipaða tilfinningu þegar ég heyrði lagið og þegar ég horfi á Pop art frá 7. áratugnum. Það eru litir og gleði en samt eitthvað meira á bak við það.”

Sjá einnig: Horfðu á myndbandið við nýja lagið hennar Dóru Júlíu

„A tribute to not giving a fuck”

Dóra er menntaður listfræðingur og hún segist alltaf hafa haft áhuga á ólíkum formum listarinnar.

„Fyrir mér er lagið „a tribute to not giving a fuck.” Það er alltaf verið að mata mann á því hvernig hlutirnir eiga að vera og oftar en ekki á fólk erfitt með að passa inn í þann ramma sem samfélagið setur því,” segir Dóra Júlía.

Stundum er það eina sem maður getur gert að segja bara „hey, whatever” og haldið svo áfram að gera sitt

Ágústa Ýr Guðmundsdóttir vinkona Dóru sá um að gera myndband við lagið en hún starfar sem sjónlistamaður í New York.

„Hún gerði tryllt myndband við lagið og fangaði nákvæmlega stemninguna sem við vorum að reyna að ná fram í laginu. Það hjálpaði okkur að skapa smá heim fyrir þetta pop art þema.”

Dóra segir að þó svo að lagið sé litríkt og skemmtilegt þá sé boðskapur þess alveg jafn mikilvægur. „Það er í lagi að vera bæði litríkur og skemmtilegur en líka pólitískur. Það var svolítið það sem við vildum ná fram með laginu. Það eru miklar andstæður, viðlagið er svolítið litir og fluff á meðan erindin eru pólitískari. Þetta er pop art í okkar samtíma.”

„Í erindunum í laginu klipptum við saman upptökur af gömlum karli að tala um hvernig stelpur eiga að hegða sér. Ég og vinkonur mínar tókum svo upp á símann minn frasa sem við notum í daglegu lífi á borð við „Hey Whatever” og „Oh Gosh” sem mótsvar við gamla karlinum og það steinlá svo bara sem erindi í laginu.”

Bleikt og ótrúlega skemmtilegt útgáfupartí

Það verður haldið risa útgáfupartí fyrir lagið frá klukkan 6-8 í kvöld á Petersen svítunni. Lagið kemur svo inn á Spotify og Youtube á miðnætti.

„Þetta verður aðallega bleikt og ótrúlega skemmtilegt. Við verðum með skjá bæði úti á palli og inni og þar mun ég sýna tónlistarmyndbandið. Lagið er svo ótrúlega sjónrænt og myndbandið er ómissandi partur af þessu. Þess vegna er gaman að gera flottan viðburð í kringum það.”

Boðið verður upp á Gordon’s Pink Gin og bleikar makkarónur fyrir gesti ásamt því að fyrstu gestir fá gjafapoka frá Beautybox.

Dóra Júlía er 25 ára gömul og hún hefur nú starfað sem plötusnúður eða DJ í eitt og hálft ár. Hún segist hafa dottið svolítið óvænt inn í það starf.

„Ég fann samt fljótt að þetta væri vinna sem ég elskaði og eitthvað sem ég vildi leggja fyrir mig. Þess vegna hef ég lagt mig alla fram við þetta og hef ekki verið að vinna við neitt annað í rúmt ár. Ég er með BA gráðu í listfræði og var í dansi í 16 ár. Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á fjölbreyttu formi listarinnar og DJ starfið er bara eitt form hennar. Þegar hugmyndin af þessu lagi kom upp var ótrúlega gaman að geta nýtt mér mína þekkingu í að þróa starfið enn lengra.”

Auglýsing

læk

Instagram