Efnahagsráðgjafi Sigmundar sonur biskups Íslands

Auglýsing

Eins og RÚV greindi frá á dögunum óskaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra eftir bréfi frá Agnesi M. Sigurðardóttur biskup um fjárveitingar til Þjóðkirkjunnar. Í bréfinu varaði Agnes við því að sóknargjöld yrðu skorin meira niður.

„Þetta bréf var skrifað að beiðni minni þar sem ég hafði orðið þess áskynja að kirkjan teldi vanta nokkuð upp á fjárveitingar. Og vísaði meðal annars í samkomulag,“ sagði Sigmundur í frétt RÚV.

„Kirkjan hefur gefið töluvert eftir af því fjármagni sem hún hefur átt tilkall til á undanförnum árum, og í raun og veru alveg frá því í efnahagshruninu.“

Sjá einnig: Úr hverju hefur Þjóðkirkjan að spila?

Auglýsing

Samkvæmt frétt RÚV hefur starfshópur á vegum innanríkisráðuneytisins lagt til að Þjóðkirkjan fái endurgreiddan þann niðurskurð sem hún tók á sig umfram aðrar stofnanir eftir hrun. Upphæðin nemur um 660 milljónum króna. Það er hins vegar gert ráð fyrir að Þjóðkirkjan fái aðeins lítið brot af þeirri fjárhæð.

En hvers vegna er forsætisráðherra að spá í fjármálum kirkjunnar?

Heimatökin voru eflaust hæg þegar Sigmundur Davíð óskaði eftir bréfi Agnesar þar sem sonur hennar hefur verið efnahagsráðgjafi Sigmundar og er einn nánasti vinur hans: dr. Sigurður Hannesson.

Sigurður er stærðfræðingur og framkvæmdastjóri hjá MP banka. Hann var formaður nefndar ríkissjórnarinnar um skuldaleiðréttingu.

Í athugasemd undir frétt um fólk sem á rætur í Reykhólahreppi segir Gunnlagur M. Sigmundsson, faðir forsætisráðherra, að Sigurður sé einn nánasti vinur, efnahagsráðgjafi og samstarfsmaður Sigmundar Davíðs og að þeir hafi kynnst fyrst við doktorsnám í Oxford. Þá var Sigurður sagður njóta mikils trausts formanns Framsóknarflokksins í mola á Pressunni í maí árið 2013.

Í bréfi sínu bendir biskup á að sóknargjöldin séu bundin í lög, og að það þurfi að fara eftir þeim lögum. Í viðtali við RÚV tekur Sigmundur undir að kirkjan hafi sýnt mikið umburðarlyndi og fórnfýsi á undanförnum árum:

Og gefið eftir töluvert fjármagn sem hún hefði getað gert tilkall til. Þannig að það er eitthvað sem þarf að skoða með kirkjunni, að menn gangi ekki um of á lagið. En ég hef sjálfur, á undanförnum árum, þakkað kirkjunni fyrir það framlag sem hún hefur látið af hendi rakna til uppbyggingar efnahags landsins. Og það er sjálfsagt að hún njóti þess í framhaldinu.

Starfshóp Innanríkisráðuneytisins skipuðu þau Sigríður Anna Þórðardóttir, fyrrverandi ráðherra, Viðar Helgason, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og séra Gísli Jónasson, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Rjómalöguð rækjusúpa

Tandoori kjúklingaleggir

Instagram