„Ég á tækifæri til að búa mér og dóttur minni gott líf og bjarta framtíð í gegnum þessa íþrótt“

Bardagakonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir mætir Mallory Martin í atvinnuviðureign í blönduðum bardagalistum í nótt á Invicta 22 bardagakvöldinu í Kansas City. Bardaginn hefst lauslega upp úr miðnætti og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Undirbúningur Sunnu fyrir bardagann hefur staðið yfir síðan í byrjun febrúar. Sunna barðist fyrst sem atvinnumaður á bardagakvöldi Invicta í september í fyrra og vann þá Ashley Greenway örugglega.

Sunna gekk til liðs við Invicta Fighting Championships, sem er stórt bardagasamband í Bandaríkjunum, í apríl í fyrra. Hún varð þar með atvinnumaður í MMA, blönduðum bardagalistum, fyrst íslenskra kvenna.

„Það er margt öðruvísi núna en það var seinast,“ segir Sunna.

Fyrir það fyrsta þá erum við búin að flytja Mjölni í Öskjuhlíðina þar sem aðstaðan er ekki bara góð heldur frábær. Síðan er bara búinn að vera svo mikill bardagahugur í öllum í liðinu. Margir búnir að vera að gera sig klára til að berjast og það hleypir náttúrulega nýju leveli af ákefð í alla.

Sunna segir að undirbúningurinn fyrir bardagann hafi gengið vel og að Mallory Martin sé öðruvísi bardagakona en Ashley Greenway. „Ég geri algjörlega ráð fyrir að hún verði sú öflugasta sem ég hef tekist á við,“ segir hún.

„Hún þarf að vera undirbúin fyrir það sama. Ég er búin að bæta mig mikið síðan ég barðist seinast og er búin að læra margt sem ég kunni ekki þá. Ég er tilbúin í bardagann að öllu leyti og hlakka bara til kvöldsins.

Ég á tækifæri til að búa mér og dóttur minni gott líf og bjarta framtíð í gegnum þessa íþrótt. Ég er búin að leggja á mig mikið erfiði og færa miklar fórnir til að komast hingað sem ég er komin og hverri þeirri sem reynir að standa í vegi fyrir mér er hollast að vera tilbúin til að berjast sinn besta bardaga.“

Auglýsing

læk

Instagram