„Ég hélt að ég myndi deyja“ – Skelfileg upplifun gesta í „Fermingarveislu aldarinnar“

„Ég hélt að ég myndi deyja.“

Þetta voru fyrstu viðbrögð eins tónleikagests sem Nútíminn ræddi við eftir tónleikana Fermingarveisla aldarinnar í Laugardalshöll í gærkvöldi. Hann var ekki einn um þá tilfinningu – fjöldi annarra sem við ræddum við tók undir það sama: að þau hefðu í alvöru óttast um líf sitt í troðningnum sem myndaðist inni í höllinni.

Tónleikarnir voru haldnir í tilefni þess að fjórtán ár eru liðin frá upphafi útvarpsþáttarins FM95BLÖ, og komu þar fram fjölmargir þekktir listamenn. Meðal þeirra voru FM95BLÖ-strákarnir sjálfir – Auðunn Blöndal, Steindi Jr. og Gillz – ásamt DJ Timmy Trumpet, Herra Hnetusmjöri, Jóhönnu Guðrúnu, Sverri Bergmanni og fleiri. Mikill fjöldi mætti í höllina og lýsa margir tónleikunum sem algjöru öngþveiti.

Auglýsing

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu voru þrír einstaklingar fluttir á bráðamóttöku með minniháttar áverka. Margir sem voru viðstaddir segjast hins vegar hafa orðið vitni að miklu alvarlegri aðstæðum en fram kemur í opinberum tilkynningum – fólk hafi fallið til jarðar og verið troðið undir, aðrir hrópað á hjálp og sumir misst meðvitund.

Samfélagsmiðlar loga – ekkert heyrst frá FM95BLÖ-mönnum

Myndir og myndskeið af aðstæðunum í Laugardalshöll hafa borist eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla síðan í gærkvöldi. Þar má sjá troðning af áður óþekktri stærðargráðu á íslenskum tónleikum – fólk reynir að komast undan mannþrönginni, dettur, öskrar og sér aðra liggja á gólfinu.

Í Facebook-hópnum Beauty Tips lýsa margar konur og karlar því hvernig þau urðu að gefast upp á biðröðum eftir salerni og gera þarfir sínar á gólfið. Fjöldi gesta segir frá slagsmálum, hræðslu og hjálparleysi – og margir krefjast endurgreiðslu. Aðrir eru að reyna að bera kennsl á fólk sem þeir telja hafa sýnt af sér ofbeldi í troðningnum.

Þrátt fyrir umfang atburðarins og þann fjölda sem lýst hefur reynslu sinni opinberlega hefur enginn af aðstandendum tónleikanna tjáð sig um málið. Fastlega má þó gera ráð fyrir því að yfirlýsing berist síðar í dag eða á morgun, í ljósi þess hversu mikil umræða hefur skapast og hversu mikið myndefni hefur komið fram sem sýnir aðstæður sem sumir lýsa sem hreinlega lífshættulegum.

Nútíminn fylgist áfram grannt með framvindu málsins.

Myndskeiðið sem Nútíminn birtir með fréttinni er tekið af TikTok og sýnir svart á hvítu hversu slæmar aðstæður voru innan Laugardalshallar. Fólk er að troðast, hrópa og reyna að brjótast leið út úr mannmergðinni, og á köflum má sjá einstaklinga falla og komast ekki upp aftur. Einnig má greina slagsmál sem virðast hafa brotist út í miðju kaosinu, þar sem fólk ýtist og slær hvert annað í ringulreiðinni.

Þetta myndband styður við lýsingar tónleikagesta sem sögðu óttast um líf sitt, og sýnir betur en nokkur orð hvernig stemningin fór algjörlega úr böndunum. Margir spyrja nú hvort nægilegt hafi verið gert til að tryggja öryggi á svona fjölmennum viðburði.

@stinaasa Hélt ég væri að láta lífið um tíma en lifði þetta af 🥴🫨 #fm95blö #tónleikar #íslenskt ♬ original sound – Stína

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing