Vísir greindi frá í gær. Mohammad Kourani, sem var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps, hefur nú afsalað sér alþjóðlegri vernd. Honum verður vísað úr landi eftir að hafa afplánað helming refsingarinnar, með 30 ára endurkomubann.
Nútíminn hefur áður fjallað ítarlega um málið, þar á meðal um aukinn viðbúnað í fangelsinu vegna Kourani, auk annarra frétta sem snúa að öryggi hans og hegðun.
Helgi Magnús: „Megi hann fara og vera“
Helgi Magnús Gunnarsson, fyrrverandi vararíkissaksóknari sem sætti árum saman líflátshótunum frá Kourani, segir að hann muni ekki sakna hans.
„Megi hann fara og vera en ég vona svo sannarlega að hann komi aldrei aftur til Íslands,“ segir hann.
En Helgi óttast að endurkomubannið verði lítils virði. „Ég hef ekki nokkra trú á öðru en að þessi maður geti bara komið hingað þegar honum hentar, bara ef honum sýnist. Landamærin eru galopin,“ segir hann.
Áralangar hótanir og gagnrýni á yfirvöld
Helgi hefur ítrekað bent á að yfirvöld hafi brugðist í málinu. Hann segir sleifarlag hafa einkennt alla meðferð þess frá upphafi.
„Við þekkjum þessa sögu – hann hefur verið á okkar framfæri með ofbeldi og hótanir,“ segir hann og rifjar upp 18 mánaða regluna sem veitti Kourani sjálfkrafa dvalarleyfi.
„Reksturinn“ á landamærunum
Helgi bendir á að ítrekað hafi menn sem vísað var úr landi snúið aftur, jafnvel á undan lögreglumönnunum. Hann segir Úlfar Lúðvíksson, fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, hafa verið eini maðurinn sem sýndi næga hörku í þessum málum. Úlfar var látinn hætta í maí.
„Af einhverjum ástæðum var hann látinn fara – líklega af því að hann sýndi ekki sama sleifarlagið og ráðherrarnir,“ segir Helgi.