Elín hefur unnið í fleiri en 30 like-leikjum á einu ári: „Það þarf að taka þátt til að vinna“

Elín Birna Bjarnfinnsdóttir er eflaust heppnasta kona landsins. Hún er búin að vinna tugi vinninga á Facebook og í öðrum leikjum bara á þessu ári og í desember eru vinningarnir orðnir sex talsins. Hún hefur unnið afnot af bíl, hótelgistingu, áritaða treyju frá Alfreð Finnbogasyni og margt, margt annað.

Elín segist í samtali við Nútímann ekki hafa tölu á vinningum sem hún hefur unnið síðan hún byrjaði að taka þátt í hinum ýmsu leikjum. „Þetta eru örugglega 30 vinningar bara í Facebook-leikjum og ég hef unnið í morgun öðrum leikjum líka,“ segir hún létt.

Ég hef oft sagt það þurfi að taka þátt til að vinna. En það er bara ótrúleg heppni að vinna.

Auglýsing

Ekkert lát er á vinningaflóði Elínar en bara í desember er hún búin að vinna í sex leikjum, tveimur á Facebook og fjórum annars staðar. Á þessu ári er hún meðal annars búin að vinna miða á tónleika, nokkur gjafabréf á veitingastaði — til dæmis í Tryggvaskála, Kaffi krús, Yellow, Hótel Selfoss og Hótel Grímsborgir, gistingu á Hótel Örk, gjafabréf í Hagkaup, nokkur gjafabréf í Lindex, ýmsa bingóvinninga, gjafabréf í fjarþjálfun, námskeið í fótbolta fyrir tvíburana sína, bækur, fullt af bíómiðum, þrjú gjafabréf í verslanir í Kringlunni, bjór og bjórglös, föt frá Ígló, miða á fótboltaleiki, heilsuúr, gjafakörfu frá Ljóma og afnot af Color Run-bílnum í viku. „Það vakti mikla lukku hérna Eyrarbakka og á Selfossi,“ segir hún.

Athugið að þetta eru vinningarnir sem hún man eftir. Og svo virðist sem vinningarnir hreinlega elti Elínu á röndum en hún vinnur meira að segja í leikjum á meðan hún er að njóta ávaxta vinninga sem hún hefur unnið. „Í desember vann ég jólamat fyrir tvo og á meðan ég og maðurinn minn vorum að borða fékk ég skilaboð um að ég hafi unnið treyju áritaða af Alfreð Finnbogasyni í leik á Facebook. Mér fannst það nokkuð gaman,“ segir hún.

Elín telur sig ekki eiga langt að sækja heppnina og bendir á þessa umfjöllun hér úr Dagblaðinu frá 1979. Þar sést þegar móðir hennar, Jóhanna Elín Þórðardóttir, vann úttekt í kaupfélaginu á Eyrarbakka í neytendaleik Dagblaðsins.

Spurð hvort hún sé jafn heppin í lottóinu segist hún hafa unnið nokkra litla vinninga og í haust vann hún 100 þúsund krónur í jókernum í Lottóinu. Þá hefur hún unnið í happdrætti SÍBS.

Elín tekur að lokum skýrt fram að hún og fjölskylda hennar vilji þakka kærlega fyrir alla vinningana.

Auglýsing

læk

Auglýsing

Fréttir

Auglýsing