Miklar umræður hafa skapast á Facebook eftir fræðslukvöld fermingarbarna í Glerárkirkju á Akureyri þar sem kynfræðingurinn Sigga Dögg hélt erindi um kynlíf, samþykki og líkamsmynd.
Einn faðir, Ingþór Örn Valdimarsson, gagnrýnir fræðsluna harðlega og hefur skráð dóttur sína úr henni.
„Við munum aldrei aftur mæta í fermingarfræðslu þar sem svona guðlasti er varpað fram“
Í færslu sem Ingþór birti 18. október lýsir hann mikilli óánægju með fræðsluna:
„Ég sagði dóttur mína úr ‘fræðslunni’ hjá þeim. Hún mun fermast og játa trú sína á Jesús Krist, en eftir að hafa setið klukkustund þarna inni og hlustað á fullorðna manneskju ‘predika’ yfir henni mikilvægi sjálfsfróunar á köldum vetrarkvöldum og vera dugleg að skoða ‘hvort annað’ með tilheyrandi glæru, þá var farið yfir strikið með að ‘druslustimpla’ Maríu Mey sem ‘vissi nú ekki einu sinni með hverjum hún hefði átt Jesús með’ og að postularnir hefðu bara verið abbó út í Maríu Magdalenu því hún hefði alltaf verið ‘í sleik við Jesú’.
Við munum aldrei aftur mæta í ‘fermingarfræðslu’ þar sem svona guðlasti er varpað fram undir hlátri og klappi ‘presta’ kirkjunnar.“

Nýtt fyrirkomulag í Glerárkirkju
Fermingafræðslan í Glerárkirkju hefur tekið breytingum á undanförnum árum. Nú eru fermingarbörn hvött til að mæta með foreldrum eða öðrum nánum aðstandendum.
Á heimasíðu kirkjunnar segir:
„Komandi vetur verður öll fermingarfræðslan byggð upp á samveru, tengslum og nánd foreldra og ungmenna, þ.e.a.s. að börnin koma aldrei ein í fræðsluna, það er alltaf einhver fullorðinn með þeim, hvort sem það eru amma/afi eða foreldri. Þetta verða fjórar svona fræðslustundir yfir veturinn og þær byggjast upp á því að við borðum saman og svo vinna foreldrar og börn saman að verkefnum sem snúa að lífsviðhorfum, gildum, spurningum um tilgang, glímurnar í lífinu og samskipti.“
Prestarnir Sindri Geir Óskarsson og Hildur Björk Hörpudóttir, ásamt djáknanum Eydísi Ösp Eyþórsdóttur, bera ábyrgð á fræðslunni og breyttu fyrirkomulagi hennar.
Sigga Dögg eyðir færslu eftir gagnrýni
Í kjölfar umræðunnar fjarlægði Sigga Dögg færslu sína á Facebook þar sem hún hafði lýst ferð sinni norður og ánægju sinni með fræðsluna í kirkjunni.
Í færslunni, sem hún birti 16. október, skrifaði hún meðal annars:
„Í vikunni varð mér smá á í messunni þegar ég ruglaðist á landsfjórðungum og kirkjunni sem ég átti að vera með fræðslu í. En koma tímar, koma ráð og sem betur fer var presturinn snar í snúningum og úrreðagóður með meira svo ég náði síðasta sæti í vélinni norður, með naumindum!
Enda biðu tæplega þrjú hundruð foreldrar og börn þess að ég myndi messa yfir þeim um kynfæri og kynlíf og samþykki og ást og sleik. Sem mér er bæði ljúft og skylt að gera.
En það er svo magnað að kynfræðslan fer oft á óvæntar slóðir eins og bara allt í einu vorum við farin að tala um drusluskömm Maríu Magdalenu og að hún og Jesús hefðu svo oft verið í sleik fyrir framan lærisveinana sem höfðu verið abbó og reynt að minnka hana með því að skella á hana allskyns fúkyrðum.
Ekki nóg með það heldur ræddum við kynfæri í baula og hvernig þau tengjast skömm og líkamsmynd og sjálfstrausti og sjálfsát. Og auðvitað var þeim varpað upp á vegg.
Og ég staldrði við, bara í eitt andartak eða svo, og rifjaði upp hvað gerðist síðast þegar ég sýndi kynfæri í kirkju…
En síðan þá eru liðin mörg ár, sem betur fer!
Lífið er auðvitað eitt stórt ævintýri sem hefur alltaf húmor fyrir sjálfu sér, ekki satt?
En vitið, ég elska að vera með fræðslu í kirkju. Samtalíð má fara á aðra staði en annars staðar. Það er eitthvað alveg spes þar.“

Síðar skrifaði hún nýja færslu þar sem hún útskýrði ákvörðun sína að eyða upphaflegu færslunni:
„Ég nenni ekki svona heift og reiði og rifrildi og misskilningi og að vera úthrópuð hitt og þetta,“ sagði hún þar meðal annars.
Það var Akureyri.net sem sagði fyrst frá.