Ferðamaðurinn sem gekk örna sinna rétt hjá póstkassa Fljótsdal í Fljótshlíð í gær var aðeins 50 metrum frá góðri salernisaðstöðu á farfuglaheimili. Bóndinn Þorkell Daníel Eiríksson birti myndir af ferðamanninum á Facebook í gærkvöldi og vöktu þær mikla athygli.
Myndirnar sem Þorkell tók af ferðamanninum sýna skilti með risavaxinni ör sem bendir á farfuglaheimilið. Ferðamaðurinn lét sér fátt um finnast og verpti í augsýn bóndans sem var staddur á heimili sínu. „Ég sagði við konuna að ég yrði sko heimsfrægur ljósmyndari, þegar ég keypti myndavélina en hún trúði mér ekki þá,“ segir Þorkell léttur í samtali við Nútímann.
Það versta við þetta er að í mesta lagi 50 metrum ofar er ég með farfuglaheimili með fullkomlega góðri salernisaðstöðu og ef þú skoðar myndirnar sérðu skilti í bakgrunni með ör ofaná sem bendir á farfuglaheimilið. Svo er auðvitað húsið hjá mér í um 25-30 metra fjarlægð.
Í færslu sinni á Facebook í gær sagðist Þorkell vera búinn að fá upp í kok af túristum sem gera þarfir sínar hvar sem er. „Þetta fer bara versnandi,“ sagði hann.
„Þessi skíthaus ákvað að drulla rétt hjá húsinu og munar litlu að hann drulli í póstkassann. […] Svo kemur kvikindið, voða ánægður með sjálfan sig, skíðandi upp að húsinu og ætlar að halda áfram upp brekkuna þegar ég stoppa hann og urra á hann að þetta sé ekki bílastæði og þaðan af síður klósett, þá kom svarið: „SO?““
Þorkell sagði að ferðamaðurinn hafi ekki þrifið upp eftir sig. „Svona lið á að taka og kassavenja áður en því er sleppt lausu. Ef að þessi aðili er gestur hjá einhverjum hérna sem ég þekki, þá myndi ég mæla með því að fylgjast vel með honum svo hann drulli ekki á gólfið hjá viðkomandi.“