Fermetrinn á 700 þúsund í umdeildum turni

Fermetraverð íbúðar, sem nú er auglýst til sölu í óbyggðu turnhýsi í Skuggahverfi Reykjavíkur, er rúmlega 700 þúsund krónur.

Íbúðin verður á 10. hæð hússins og samkvæmt auglýsingu á vef fasteignasölunnar Stakfell kostar hún rúmar 183 milljónir og er samtals 254 fermetrar. Svefnherbergin eru fjögur, stofurnar tvær og svalirnar 119 fermetrar. Í fyrra var hæsta fermetraverðið í miðborginni 336 þúsund samkvæmt umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans.

Turnhýsið rís nú á horni Lindargötu og Frakkastígs og kostar fermetrinn allt að milljón í dýrustu íbúðunum. Bygging hans hefur verið umdeild og gerðu margir athugasemdir við byggingu hans, þar á meðal borgarfulltrúar og minnihluti fyrri borgarstjórnar. Samkvæmt frétt RÚV frá því í júlí í sumar rís turnhýsið samkvæmt upphaflegum teikningum og verður ekki lækkað.

Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, sagði í fréttum RÚV að viðræður við forsvarsmenn fyrirtækisins sem sér um framkvæmdir, um að færa turninn eða lækka hann, hefðu ekki borið árangur. Borgin gæti reynst skaðabótaskyld ef hún hygðist stöðva framkvæmdirnar á þessu stigi.

Auglýsing

læk

Instagram