Tæplega 800 manns sem segjast vera staðsett á Íslandi, aðallega erlendar konur, eru skráð á alþjóðlega vefsíðu fyrir fylgdarþjónustu og vændi. Skráningar hafa margfaldast á tveimur árum en tæplega hundrað konur sem sögðust vera staðsettar á Íslandi voru skráðar á síðuna í desember árið 2015.
Sprenging hefur orðið í vændi á Íslandi á síðustu 18 mánuðum. Þetta kemur fram á mbl.is. Þar kemur einnig fram að lögreglan telji að þróunin haldist í hendur við fjölgun ferðamanna og uppgang í efnahagslífi þjóðarinnar. Þá telur lögregla að hluti þessarar starfsemi tengist skipulögðum glæpasamtökum.
Fréttir Stöðvar 2 greindu frá vefsíðunni City of Love fyrir tveimur árum. Á vefnum kemur fram að um alþjóðlega þjónustu sé að ræða fyrir fólk sem ferðast í viðskiptaerindum og er í leit að fylgdarþjónustu. Þau sem eru skráð á síðuna bjóða flest upp á kynlíf gegn gjaldi og tekið er fram hverskonar kynlífsþjónusta er í boði í upplýsingum sem finna má um þau sem skráð eru á síðuna.
Þegar Stöð 2 birti frétt sína fyrir tveimur árum voru tæplega hundrað konur skráðar á síðuna. Í dag er þessi tala 784 bara í Reykjavík. Þá eru fimm á Akureyri, þrír aðilar í Garðabæ og í Reykjanesbæ, tveir í Hafnarfirði og einn Kópavogi. Aðallega er um erlendar konur að ræða en karlar auglýsa einnig þjónustu sína á síðunni og þar er einnig að finna nokkra Íslendinga sem bjóða upp á kynlíf gegn gjaldi.