Mikil umræða hefur verið um eldsneyti á Íslandi eftir að Costco kom á markaðinn með látum. Í Facebook-hópnum Keypt í Costco fullyrða margir að Costco eldsneytið komi þeim lengra en annað eldsneyti og þar hefur fólk einnig rætt um bætiefni sem blandað er út í eldsneyti á Íslandi.
Nútíminn tók saman fjórar staðreyndir sem ágætt er að halda til haga í umræðunni.
1. Vínanda blandað í bensín
Í frétt á vef Félags íslenskra bifreiðaeiganda frá því í desember árið 2015 kemur fram að Skeljungur og þar með Orkan blandi vínanda (etanóli) saman við bensínið. FÍB segist einnig hafa heimildir fyrir því að Olís blandi etanóli í bensínið á stöðvunum sínum. Í sömu frétt kemur fram að Atlantsolía blandi ekki vínanda við bensínið sitt og samkvæmt markaðsstjóranum stendur það ekki til.
Í tilkynningu frá N1 kemur fram að í tilfelli N1 sé etanólið 5%. „Olíuseljendum hér á landi ber að fylgja lögum um íblöndun á endurnýjanlegum orkugjöfum í eldsneyti, sem samþykkt voru árið 2013. N1 fer að öllu leyti eftir þeim lögum og hefur gert frá fyrstu tíð,“ segir í tilkynningunni.
Í frétt FÍB kemur fram að vínandablöndun í bensín sé langt frá því að vera óumdeild. „Fram að þessu hafa olíufélögin ekki blandað vínanda (endurnýjanlegu eldsneyti) í bensínið en látið nægja að ná hinu lögbundna heildarhlutfalli með því að blanda því meiri lífrænni olíu saman við dísilolíuna,“ segir í fréttinni.
„Orkuinnihald vínandans m.a. rúmmál er mun minna en í bensíni. Íblöndunin er því útþynning sem hefur það í för með sér að bílarnir eyða meira.“
2. Bætiefnið í eldsneyti frá Costco
RÚV greindi frá því í gær að bensínið í Costco sé öðruvísi en á öðrum bensínstöðvum. „Í það er bætt örlitlu magni af efni sem á að smyrja bíla og auka sparneytni.“
Í fréttinni kemur fram að heilbrigðiseftirlitið hafi látið Umhverfisstofnun vita af málinu. Efnið var greint og Umhverfisstofnun úrskurðaði það skaðlaust fyrir bíla þó sérfræðingur hjá stofnuninni vilji ekkert fullyrða um gæði efnisins.
3. Bætiefni í eldsneyti frá N1
Í tilkynningu frá N1 kemur fram að fyrirtækið hafi frá árinu 1996 blandað fjölvirkum bætiefnum í allt bílaeldsneyti félagsins. „Bætiefnin sem N1 notar eiga að stuðla að minni mengun, veita vörn gegn tæringu og sliti í eldsneytiskerfi ásamt því að stuðla að hreinni vél, meira afli og minni eyðslu,“ segir í tilkynningu.
„Efnin eru þróuð með köld landsvæði í huga, í takt við strangar umhverfiskröfur og gæðareglur. Efnið kemur frá Lubrizol, sama birgja og Costco flytur sitt bætiefni inn frá og er það algjörlega sambærileg ef ekki algjörlega það sama.“
4. Allir flytja inn frá sama aðila
Allt eldsneyti á Ísland kemur frá sama aðila: Norska olíurisanum Statoil. Olíudreifing er svo í höndum þriggja aðila: Olíudreifingar sem dreifir til Olís og N1, Atlantsolíu og Skeljungs sem þjónustar einnig Costco.