Engin niðurstaða á fundi í gær
Engin niðurstaða fékkst á fundi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara í gær. Fundurinn stóð yfir í um fjórar klukkustundir og lauk klukkan fimm síðdegis, án þess að hreyfing yrði á viðræðunum.
Að óbreyttu hefjast verkfallsaðgerðir á sunnudagskvöld klukkan tíu og standa til klukkan þrjú aðfaranótt mánudags. Fyrsta vinnustöðvunin nær til aðflugssvæða Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvallar. Undanþágur verða aðeins veittar fyrir neyðarflug, sjúkraflug og Landhelgisgæsluna.
Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, sagði í gær að „ýmislegt hefði verið reynt“ en að staðan væri enn óbreytt. „Við svo sem útilokum ekkert en eins og staðan er akkúrat núna þá stefnir í það, því miður,“ sagði Arnar í samtali við fréttastofu.
Sama staða fyrir tveimur árum
Svipaðar aðstæður komu upp fyrir aðeins tveimur árum, þegar flugumferðarstjórar boðuðu til verkfallsaðgerða með svipuðum hætti – og þá einnig með verulegum kostnaði fyrir íslenskt samfélag.
Líkt og Nútíminn greindi frá í desember 2023 hefur þessi fámennasta stétt landsins verið meðal þeirra sem oftast hafa boðað til verkfalla á síðustu tveimur áratugum.
Á þeim tíma fjallaði Nútíminn um harða gagnrýni á stéttina, meðal annars í pistli Jónasar Kristjánssonar frá árinu 2010 þar sem hann kallaði verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra dæmi um „linnulausa græðgi“ og hvatti stjórnvöld til að setja lög á verkföllin.
Há laun og stutt nám
Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands eru meðallaun flugumferðarstjóra rúmar 1,5 milljónir króna á mánuði. Þrátt fyrir það er námið sem liggur að baki starfinu aðeins tveggja ára praktískt nám, að fullu greitt af ríkinu – og nemar fá þar að auki mánaðarlegan námsstyrk á meðan á starfsþjálfun stendur.
Námið er kennt á vegum Isavia ANS og skiptist í þrjá hluta: grunnnám, áritunarnám og starfsþjálfun. Aðeins sex til átta nemar eru teknir inn á ári hverju. Umsækjendur þurfa að hafa stúdentspróf, tala góða ensku og íslensku og standast læknisskoðun.
Í raun er því aðeins örfáum einstaklingum, sem hafa lokið tveggja ára ríkisgreiddu námi, treyst fyrir að stýra flugumferð landsins – og þar með hafa þeir bein áhrif á alþjóðlegt flæði fólks og flugfélaga til og frá landinu.
Hvernig getur svona lítil stétt haft svona mikil áhrif?
Kjaradeilan hefur nú staðið frá apríl, en samt sem áður hefur ekkert miðað í átt að lausn. Ef verkfallið verður að veruleika á sunnudagskvöld verður lofthelgi yfir stærstu flugvöllum landsins lokuð – með miklum fjárhagslegum afleiðingum fyrir Icelandair, ferðaiðnaðinn og almenna farþega.
Spurningin sem margir velta nú fyrir sér er einföld:
Hvernig getur svo fámenn og hálaunuð stétt haft slíkt vald yfir millilandaflugi Íslands, ferðafrelsi borgaranna og afkomu heillar atvinnugreinar?