today-is-a-good-day

Formaður Tólfunnar segir engan geta tekið HÚ-ið“ frá þjóðinni

Benjamín Hallbjörnsson, formaður Tólfunnar, stuðningsmannasveitar Íslands, skilur ekki hvað vakir fyrir Gunnari Þór Andréssyni sem fengið hefur „Húh!“ – hið heimsfræga hróp úr víkingaklappinu skráð sem vörumerki. Hann segir engan geta tekið „HÚ-ið“ frá þjóðinni.

Sjá einnig: Skráði „Húh!“ sem orðmerki hjá einkaleyfastofu fyrir tveimur árum: Hugleikur fær ekki að merkja boli

„Húh!“ var skráð sem orðmerki í september árið 2016. Skráningin gildir í áratug og á meðan hefur Gunnar Þór Andrésson, skráður eigandi orðmerkisins, einkaleyfi á að merkja fatnað og drykki með þessu orði.

Hugleikur Dagsson vakti athygli á málinu í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Þar sagði hann að eigandi orðmerkisins „Húh!“ hafi haft samband við sig vegna bols sem hann teiknaði árið 2016 og kallast „HÚ!“ Honum hafi í framhaldinu verið tjáð að aðeins Gunnar Þór mætti prenta orðmerkið á boli.

Hugleikur sagðist ekki skilja af hverju Gunnar, eigandi orðmerkisins, væri með vesen. „Mitt HÚ! þarf ekki að trufla hans HÚH!. Við ættum öll að geta HÚ!að saman. Er það ekki það sem HÚ(H)! gengur útá?“

Benjamín segir Tólfuna fullkomlega sammála afstöðu Hugleiks til málsins „Við í tòlfunni erum sammála Hugleiki og nennum ekki að fara á þetta lága plan sem þessi Gunnar er malbikaður fastur á. Okkur er hugleikið hvað vakir fyrir svona manni,“ segir hann.

Hann segir „HÚ-ið“ áfram verða í eigu þjóðarinnar. „Það getur enginn tekið „HÚ-ið“ frá þjóðinni eða bannað einum eða neinum að „HÚ-a“ fram og til baka. Höldum gleðinni gangandi, áfram Ísland og Tòlfan, lífið er núna,“ segir Benjamín að lokum.

Auglýsing

læk

Instagram