Ekki er hægt að hleypa fleiri hundum inn á Ölstofu The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Ölstofunnar. Frétt Nútímans um hundinn Fróða sem var vel tekið á ölstofunni á dögunum vakti mikla athygli en samkvæmt lögum má ekki hleypa dýrum inn á veitingastaði.
Sjá einnig: Hundurinn Fróði fékk þjónustu á ölstofu í Eyjum: „Hann var alveg í toppmálum, hæstánægður á barnum“
Hundurinn Fróði mætti á barinn ásamt eiganda sínum, Eddu Sif Pálsdóttur, íþróttafréttamanni á RÚV, til að fá sér einn kaldan fyrir oddaleik ÍBV og Vals um sæti í undanúrslitum í Olís-deildinni í handbolta karla.
Kjartan Vídó Ólafsson, einn eigandi Ölstofu The Brothers Brewery, sagði í samtali við Nútímann fyrir helgi að það sé alveg jafn gaman að þjónusta hunda en Fróði fékk vatn að drekka. „Fróði var alveg í skýjunum með þessa þjónustu. Hann var alveg í toppmálum, hæstánægður á barnum,“ segir Edda Sif í samtali við Nútímann.
Í skilaboðum á Facebook-síðu Ölstofu The Brothers Brewery er beðist afsökunar á því að þarna hafi lög verið brotin. „Því miður getum við því ekki hleypt fleiri hundum inn í framtíðinni en hundaeigendur geta setið á útisvæðinu okkar með teppi frá okkur og sötrað öl,“ segir í skilaboðunum.
Ölstofan var opnuð 16. mars sl. og stendur við Vesturveg í Vestmannaeyjum.