Geir Finnsson, annar ritstjóra Leikjafrétta, tísti um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í morgun og spurði hvenær málinu færi að ljúka. Hann fær reglulega á sig skot vegna nafns síns og augljósrar tengingar þess við nafnið á málinu.
Getur þessu Geirfinnsmáli farið að ljúka? pic.twitter.com/9Ft1z5a25m
— Geir Finnsson (@geirfinns) August 9, 2016
Guðmundar og Geirfinnsmálið tók óvæntan snúning í gær þegar RÚV greindi frá því að Geirfinnur Einarsson hafi látist í umferðaróhappi þegar keyrt var á hann á Keflavíkurvegi. Þetta kemur fram í viðtali í nýrri bók Ómars Ragnarssonar.
Sjá einnig: Huldumaður viðurkennir að hafa orðið Geirfinni að bana í nýrri bók Ómars Ragnarssonar
Geir er sá eini á Íslandi sem ber nafnið Geir Finnsson og segist í samtali við Nútímann reglulega fá á sig skot vegna þess. „Ég fæ þessi skot reglulega á mig,“ segir hann.
Oft ef ég held ræðu og kynni mig sem Geir Finnsson þá heyrir maður hlátur í salnum. Klikkar ekki.
Aðspurður segir hann fólk yfirleitt halda að það sé fyrst til að fatta upp á brandaranum. „Þetta fer ekkert í taugarnar á mér þannig — ég hlæ bara með,“ segir hann.
Sjálfur vonast Geir til þess að frásögn Ómars Ragnarssonar sé sönn þó honum finnist afar leiðinlegt að Ómar hafi haldið þessum upplýsingum frá almenningi í allan þennan tíma.
„Ég veit ekkert meira en neinn annar en ég vona að þetta mál leysist fyrir fullt og allt,“ segir hann.