Gerard Butler flaug þrisvar yfir gosstöðvarnar

Skoski leikarinn Gerard Butler flaug þrisvar sinnum yfir gosstöðvarnar í Holuhrauni í dag, samkvæmt heimildum Nútímans. Butler er staddur hér á landi ásamt kærustunni sinni og hafa þau ferðast um landið ásamt athafnamanninum Halla Hansen.

Gerard Butler, kærastan og Halli sáust á Reykjavíkurflugvelli í dag og héldu þaðan með flugi að Holuhrauni þar sem þau flugu yfir gosstöðvarnar áður en þau lentu á Akureyri. Þaðan fóru þau svo í þyrluferð yfir gosstöðvarnar á ný áður en þau héldu aftur til Akureyrar. Loks flugu þau svo frá Akureyri, yfir gosstöðvarnar, og lentu aftur á Reykjavíkurflugvelli.

Butler og kærastan hafa ekki setið auðum höndum hér á landi. Á laugardagskvöld djömmuðu þau á Kaffibarnum og vöktu að sjálfsögðu mikla athygli viðstaddra. Í gær héldu þau svo í göngu á háhitasvæðið við Seltún í Krýsuvík þar sem Butler og Halli komu bandarískum ferðamanni til hjálpar eftir að hann datt og meiddi sig.

Gerard Butler er þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndum á borð við 300, P.S. I Love you og RocknRolla. Hann kynntist Íslandi þegar hann lék í kvikmyndinni Beowulf, sem var tekin upp að hluta hér á landi.

Auglýsing

læk

Instagram