today-is-a-good-day

Gleymdist að bjóða Snobbkryddinu með á tónleikaferðalagið

Stúlknasveitin sívinsæla Spice Girls, eða Kryddpíurnar á okkar ylhýra, tilkynntu nýverið tónleikaferðalag sitt um Bretland á næsta ári eins og Nútíminn greindi frá. Tónleikarnir verða sex talsins og eru miðarnir nú þegar farnir í sölu og seljast upp eins og heitar lummur.

Frá því að sveitin lagði upp laupana í kringum aldamótin hafa þær þó komið saman á hinum ýmsu stórviðburðum í gegnum tíðina. Þó það hafi verið Rauðakryddið hún Geri Halliwell sem sleit samstarfi sveitarinnar á sínum tíma og olli með því miklum usla, er það ekki hún sem verður fjarverandi á tónleikaferðalaginu enda hefur hún iðulega tekið lagið með stúlkunum þegar svo á við.

Það er hins vegar Snobbkryddið hún Victoria Beckham sem ekki mun taka þátt í tónleikaferðalaginu en Victoria er án efa sú Kryddpía sem mest hefur verið milli tannanna á fólki síðan stúlknasveitin var upp á sitt besta á tíunda áratugnum. Victoria giftist fótboltakappanum David Beckham árið 1999 og á með honum fjögur börn. Hún hefur einnig getið sér gott orð sem tískufrömuður, fyrirsæta og viðskiptajöfur. Victoria hefur því haft í nógu að snúast og hefur aldrei viljað taka þátt í endurkomum sveitarinnar hingað til, að undanskildum Ólympíuleikunum í London 2012.

Victoria birti færslu á Instagram-reikningi sínum þar sem hún staðfesti fjarveru sína og þakkaði stelpunum samstarfið og óskaði þeim alls hins besta.

Hinar Kryddpíurnar fjórar, Mel C., Geri, Emma og Mel B., misstu það svo út úr sér í stórkostlegu viðtali við breska spjallþáttastjórnandann Jonathon Ross að þær gleymdu að spyrja Victoriu hvort hún hygðist slást í för með sveitinni á næsta ári.

“Hún styður okkur í þessu, og við styðjum hana sömuleiðis” segir Mel C. við þáttarstjórnandann. “Hún [Victoria] benti okkur þó á það að hún hafi í rauninni aldrei verið spurð!”

“Var hún ekki spurð?!” skríkir Barnakryddið, Emma Bunton.

Stúlkurnar segjast aðeins hafa gert ráð fyrir því að Victoria hefði ekki áhuga á endurfundunum þar sem hún hafi aldrei sýnt því neinn áhuga í gegnum tíðina, þó engan kala beri á milli þeirra vinkvenna.

“Að því sögðu þá finnst mér nú að þið hefðuð átt að bjóða henni með ykkur,” segir þáttarstjórnandinn kíminn. Brot úr viðtalinu má sjá hér að neðan.

Auglýsing

læk

Instagram