Auglýsing

Glódís er ólétt og fólk hikar ekki við að gefa henni óumbeðin ráð: „Meðganga er ekki ávísun á veikindi“

Fim­leika­stjarn­an Gló­dís Guðgeirs­dótt­ir og Gettu Bet­ur-dóm­ar­inn Steinþór Helgi Arn­steins­son eiga von á barni í des­em­ber. Glódís hefur verið dugleg að tjá sig um meðgönguna á Twitter þar sem hún er með fjölmarga fylgjendur. Glódís birti í gær áhugaverða færslu þar sem hún hvetur fólk til að hætta að ákveða hvað óléttar konur geta og hvað ekki.

Glódís segist sem betur fer ekki oft lenda í því að fólk sé að ráðleggja henni en viðurkennir að það geti verið þreytandi. „Það þekkir enginn líkamann minn og mín þolmörk betur en ég,“ segir hún í samtali við Nútímann.

Auðvitað gerir fólk þetta af mestu umhyggju en stundum breytist hún í stjórnsemi.

Glódís hefur þó ekki látið óléttuna aftra sér og þekkir sín takmörk. „Ef ég hef heilsu til að halda á þungum hlut þá geri ég það og ef ég vil vaka frameftir og skemmta mér þá er enginn að fara að stoppa mig. Í flestum tilfellum er meðgangan ekki ávísun á veikindi.“

Glódís hefur fengið mjög mismundandi ráðleggingar en á Twitter-síðu sinni sagði hún meðal annars frá því þegar bæði mamma hennar og tengdamamma gáfu henni ráð. „Fólk hefur bent mér á að verða ekki kalt, ekki klifra, ekki vaka of lengi, ekki fara í fjallgöngu, ekki fara í sjósund og ekki gera upphífingar sem dæmi. Bara af 100 prósent ást og umhyggju,“ segir hún.

„Það fyndnasta samt við þetta er að tvö síðustu eru frá mömmu og tengdamömmu minni sem ég hugsa að ég reyni ekkert að þræta fyrir því ég er nú einu sinni að ganga með erfingja þeirra.“

Glódís ráðleggur fólki að spyrja óléttar konur hvort þær þurfi aðstoð í stað þess að gera ráð fyrir því. „Það er óþolandi, fyrir aktíva manneskju eins og mig þegar fólk geri ráð fyrir því að ég geti ekki gert eitthvað,“ segir hún.

„Best væri bara að spyrja mig hvort ég þurfi hjálp eða leiðsögn. Ég lofa líka að verða óhrædd, þegar að því kemur, að biðja um hjálp ef ég get ekki lengur haldið á innkaupapokanum.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing