Auglýsing

Guðrún hefur verið elt á röndum í tvö ár: „Hann finnur allar myndir af mér, hann er með mig á heilanum“

Guðrún Sigurbjörnsdóttir, flugfreyja og bloggari á Lady.is, hefur glímt við ógnvekjandi eltihrelli síðustu tvö ár. Manneskjan afritar eða tekur skjáskot af öllum myndum af Guðrúnu sem rata á Internetið og samfélagsmiðla. Eltihrellirinn deilir myndunum því næst á Instagram-síðu þar sem hann þykist vera Guðrún.

Svo virðist sem eltihrellirinn hafi lítið annað við tíma sinn að gera en að fylgjast grannt með öllu því sem Guðrún gerir, hennar nánustu og jafnvel vinnufélagar.

Þegar Guðrún gekk nýlega með sitt fyrsta barn hafði eltihrellinn upp á óléttumyndum af henni sem hún hafði deilt á Instagram og kom þeim í deilingu á samfélagsmiðlum tileinkuðum þungunum, síðum hér og þar í heiminum sem eru með mörg þúsund fylgjendur.

„Hann finnur allar myndir af mér, hann er með mig á heilanum. Þetta er orðið of óþægilegt. Þetta er ekki bara eitt tilfelli, þetta er búið að standa yfir í tvö ár. Allt sem ég geri veit hann,“ segir Guðrún í samtali við Nútímann.

Ef Guðrún birtist á Snapchat líður ekki langur tími þar til búið er að taka skjáskot

„Þetta byrjaði allt fyrir tveimur árum þegar ég var að vinna sem flugfreyja úti í Abu Dhabi en þá voru allir að kalla mig Elina á djamminu. Ég skildi ekkert í því en þá sýndi mér einhver Instagram-síðuna,“ segir Guðrún.

Á þessum tíma var Guðrún með opið Snapchat, Instagram og Facebook og hafði eltihrellirinn því greiðan aðgang að myndum af henni. Ef Guðrún birtist á Snapchat leið ekki á löngu þar til eltihrellirinn var búinn að taka skjáskot af henni, skjáskot sem hann deildi síðan á Instagram.

Þegar Guðrún áttaði sig á þessu lokaði hún fyrir aðgang eltihrellisins en hann lét ekki þar við sitja heldur bjó til nýjan aðgang, bætti Guðrúnu við sem vini og hélt áfram að taka skjáskot. „Svo addar hann mér aftur og aftur á Snapchat. Ég blokka hann en hann býr bara til nýjan aðgang,“ segir Guðrún. Svona gengur þetta, aftur og aftur, dag eftir dag.

Eltihrellirinn hefur ekki látið sér nægja að vera með síður á samfélagsmiðlum í nafni Guðrúnar, heldur hefur hann einnig búið til síður þar sem hann þykir vera kærasti eða vinkonur hennar.

Þá hefur hann einnig búið til Facebook-síðu í nafni vinnu Guðrúnar en í því tilviki deildi eltihrellirinn myndum af Guðrúnu og einnig vinnufélögum hennar. Hún segist ítrekað hafa tilkynnt þessar síður og stundum hafi þeim verið eytt.

Eltihrellirinn hefur líka haft upp á öllum vinkonum Guðrúnar á Snapchat og bætt þeim við sem vinum sínum. „Alltaf þegar ég birtist á snöppum hjá þeim tekur hann skjáskot og deilir á Instagram. Ég vil helst ekki að neinn deili mynd af mér lengur. Ef ég var úti á djamminu í Abu Dhabi fann hún myndir af mér sem ég vissi ekki að væru til,“ segir Guðrún.

Eltihrellirinn hefur meðal annars deilt mynd af vinkonu Guðrúnar og sagt að hún hafi látist í flugslysi. Þá hefur hún líka farið inn á síður í nafni Guðrúnar, farið að rífast og sagt að fólk eigi skilið að deyja. Guðrúnu finnst þetta verulega óþægilegt, þarna sé vegið að mannorði hennar.

Guðrún leitaði til lögreglunnar á Íslandi vegna málsins en kom að tómum kofanum þar. „Þau segjast ekkert geta gert þar sem hann virðist vera í útlöndum,“ segir Guðrún.

Þegar eltihrellirinn deilir myndum á Instagram-síðunni fylgir alltaf texti á íslensku en Guðrún segir augljóst að hann sé gerður með hjálp þýðingarsíðu og að eltihrellirinn sé ekki íslenskumælandi. Hún segist hafa séð eltihrellinn tjá sig á rússnesku á internetinu.

Hún segir greinilegt að eltihrellirinn sé búinn að vista allar myndir sem hún hefur deilt síðustu tvö ár því stundum deilir hann gömlum myndum á netinu.

Málið varð enn alvarlegra eftir að barnið kom í heiminn

Guðrún segist hafa lagt áherslu á að láta eltihrellinn ekki stjórna lífi hennar og hefur fram að þessu meira og minna haft samfélagsmiðla sem hún notar opna. Nú hefur hún aftur á móti tekið ákvörðun að hafa allt lokað. Bloggararnir á Lady.is hafa skipst á að vera með Snapchat-aðgang síðunnar en Guðrún sér sér ekki fært að taka þátt í því lengur.

„Ég er búin að að gefast upp á að hafa allt opið, ég er búin að loka öllu. Ég get ekki verið með snappið, hann tekur skjáskot af öllu, líka þegar barnið mitt er í mynd,“ segir Guðrún.

Hún segir að ákvörðunin hafi ekki verið auðvelt, enda hafi hún mjög gaman af því að láta ljós sitt skína á Snapchat og öðrum samfélagsmiðlum. Eftir að hún varð móðir hafi málið aftur á móti orðið enn alvarlegra því eltihrellirinn sé farinn að deila myndum þar sem barnið hennar sést, í leyfisleysi.

Guðrún bendir að lokum á að hún viti alveg að hún geti átt að von á áreiti af einhverju tagi þar sem hún er bloggari og snappari. „En þetta eru mínar myndir. Það hefur enginn rétt á að taka þær og deila þeim,“ segir Guðrún.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing