Gummi Jör vill hanna nýjan landsliðsbúning

KSÍ frumsýndi nýjan landsliðsbúning í ágúst og kjölfarið birti Vísir frétt um misjöfn viðbrögð fólks á Facebook-síðu knattspyrnusambandsins.

Hilmar Þór Guðmundsson, sem sér um fjölmiðla- og markaðsmál fyrir KSÍ birti á dögunum kynningarmyndir sem hann tók af Gylfa Þór Sigurðssyni og Kolbeini Sigþórssyni í nýju búningunum. „Er að fíla landsliðsbúning í tætlur — enda kom ég að hönnuninni á honum,“ sagði hann.

Fatahönnuðurinn Guðmundur Jörundsson, sem hannar og selur fatnað undir merkinu Jör, virðist ekki sáttur við nýja búninginn og hefur boðist til að hanna nýjan. „Fallegar myndir af fallegum drengjum. Ég skal hinsvegar sjá um að gera búningana fyrir þig næst. Þetta er ekki málið þó það sé skárra en síðast,“ segir hann í athugasemd undir myndum Hilmars.

Þó það hljóti að vera ólíklegt að nýr búningur verði hannaður í bráð þá tekur Hilmar vel í tilboð Guðmundar: „Guðmundur Jörundsson — við tökum kaffi innan tíðar!“

Auglýsing

læk

Instagram