Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata opnaði sig um kynferðisofbeldi sem hann varð fyrir í æsku í viðtali við mbl.is í gærkvöldi. Gunnar Hrafn var 5-6 ára þegar ofbeldið átti sér stað, en það stóð að hans sögn yfir í nokkurn tíma. „Ég varð fyrir kynferðislegu ofbeldi þegar ég var barn. Ég skildi í raun ekki hvað gerðist fyrr en ég varð eldri. Ef maður veit ekki hvað þetta er, þá veit maður ekki að það hafi veri brotið á sér fyrr en miklu seinna,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is
Gunnar segir að ofbeldið hafi haft gríðarleg áhrif á líf hans en hann vakti mikla athygli í vetur þegar hann greindi frá því opinberlega að hann væri að glíma við þunglyndi og tók hlé frá þingstörfum.
Gunnar, ásamt fleiri karlkyns Pírötum, lýsti yfir stuðningi við HöfumHátt en það er átak sem nú fer fram á samfélagsmiðlum. Gunnar segir átakið hafa hreyft við sér. „Þegar ég sá að fólk var að koma út sem líka hafði glímt við þessa hluti sem ég var að glíma við, þá ákvað ég að gera það líka,“ sagði Gunnar en hann hafði aðeins trúað örfáum vinum fyrir ofbeldinu.