Gunnar Nelson: „Leiðinlegt að hlusta þegar svona þvæla kemur upp“

Vinsældir blandaðra bardagalista jukust mikið á síðasta ári en íþróttin var engu að síður umdeild. Gunnar Nelson segir fínt að fólk segi sína skoðun en bætir við að það sé oft fljótt að dæma. Þetta kemur fram í viðtali við Gunnar á Vísi en lesendur vefsins hafa valið hann íþróttamann ársins:

Mér finnst fínt að fólk segi sína skoðun og það er óumflýjanlegt. Mikið af því sem ég hef séð er komið frá fólki sem þekkir ekki íþróttina og horfir á hana með óreyndum augum. Það á því til að vera fljótt að dæma enda er íþróttin harðgerð og fer fyrir brjóstið á mönnum.

Á meðal þeirra sem gagnrýndu íþróttina á árinu var þjóðfélagsrýnirinn Egill Helgason, sem kallaði íþróttina mannlegan hanaslag:

„Ég lagði það á mig í fyrsta sinn að horfa á myndband af hinni svokölluðu “íþrótt” sem Gunnar Nelson stundar,“ skrifaði Egill á bloggsíðu sína og hélt áfram:

„Ólystugt er fyrsta orðið sem kom í hugann – en svo fattar maður að það er ekki nógu sterkt orð. Þetta er ógeðslegt. Þarna hoppa menn um fáklæddir, líkt og á nærbuxunum, en eru svo allt í einu komnir í gólfið, farnir að kyrkja hvor annan eða berja og klóra þannig að blóðið flæðir. Þetta er upphafnig ofbeldis og líkamsmeiðinga.“

Gunnar hvetur fólk til að setja tilfinningar sínar til hliðar ef tilgangurinn er að rýna í íþróttina og koma fram með skoðanir sínar á opinberum vettvangi.

„Það er að minnsta kosti mitt álit,“ segir hann á Vísi.

„Ég held að margt af því sem er sagt er sagt í flýti. En að sama skapi verða ummælin til þess að það er hægt að koma með góð svör á móti og mennta fólk aðeins betur í þessum fræðum. Það er jákvætt að það sé hægt að svara gagnrýninni þó svo að það sé alltaf leiðinlegt að hlusta þegar svona þvæla kemur upp.“

Gunnar ætlar að berjast á ný seint í febrúar eða í byrjun mars. Ekkert liggur þó fyrir um staðsetningu bardagans eða andstæðing. Hann segir ekki ólíklegt að hann muni berjast í Las Vegas í Bandaríkjunum í fyrsta sinn á ferlinum.

Auglýsing

læk

Instagram