Bílstjóri sem svínaði fyrir ökumann á grænum Toyota Rav 4 (númer „NN eitthvað“) biðst afsökunar í dálknum Velvakanda í Morgunblaðinu í dag. Afsökunarbeiðnin er auðmjúk og stórskemmtileg en undir hana skrifar „hálfviti á bláum Audi“.
„Ég fór yfir á – skulum við segja – skær skær skærbleiku ljósi á Kringlumýrarbraut mánudagskvöldið 18. apríl og svínaði hróplega fyrir þig þar sem þú komst aðvífandi, ex nihilo að mér fannst, úr annarri átt,“ segir „hálfvitinn“ í afsökunarbeiðni sinni og ávarpar bílstjórann í hinum bílnum beint.
Aðeins hárbeitt athygli þín, snör handtök og nauðhemlun komu í veg fyrir að hyggjuleysi mitt og fáráðlingsháttur ylli okkur báðum verulegu tjóni.
„Hálfvitinn“ segir að þetta hafi verið það heimskulegasta sem hann hefur gert í lengri tíma. „Svipbrigði þín voru réttilega þrúguð reiði og furðu í senn,“ segir hann og kallar eftir því að sjálfkeyrandi bílar geri heiminn öruggari.
„Maður telur sig skyni borna veru, en sýnir svo af sér svo yfirgengilegan dómgreindarskort í svölu aprílhúmi! Megi sjálfkeyrandi bílar hið allra fyrsta gera heiminn öruggari fyrir hálfvitum eins og mér.
Ég mun gera mitt allra besta til að nýta þessa lífsreynslu til auðmjúkrar sjálfsbetrunar, hætta snarlega að líta á mig sem góðan bílstjóra og bið þig hér með innilega afsökunar.“