Heiðrar fótboltalandsliðið með bolum

Ljósmyndarinn Árni Torfason hefur í hjáverkum hannað merkingar á boli sem hann kallar 8bit art, eða átta bita list. Er það vísun í leikjatölvur fortíðarinnar sem voru aðeins átta bita og gátu ekki birt flókna grafík. Bolina selur árni á vefsíðunni Spreadshirt.com, sem býður öllum upp á að selja hönnun sína prentaða á boli.

Eftir góðan sigur Íslands á Tyrklandi í gær hannaði Árni bol til heiðurs landsliðinu og markaskorurunum þremur, Jóni Daða, Kolbeini og Gylfa Þór. Túlkun Árna á þeim má sjá hér:

Árni segist alltaf hafa verið mikill stuttermabolamaður. „Ég á ábyggilega svona 30 mismunandi stuttermaboli og hef átt svona 100 í gegnum tíðina,“ segir hann. „Svo datt í smá bolahallæri hjá mér þegar ég var hættur að finna boli sem mig langaði að vera í. Farnir í að vera alltaf virkilega flóknir bolir með miklum texta á og furðulegir. Þannig að ég ákvað að búa til boli fyrir sjálfan mig sem ég gæti hugsað mér að ganga í.“

Svo var hugmyndin að finna hvað ætti að fara á bolina. Mér fannst þetta þurfa að vera eitthvað smá samræmi í þessu og þá datt mér í hug þessi 8bita hugmynd. Henti í nokkra boli fyrir sjálfan mig en ákvað svo fyrst það var hægt að selja á þessari síðu líka að leyfa fólki að kaupa ef það vildi.

Árni hefur gripið ýmsa viðburði á lofti og hannað boli sem vísar í þá. Hér má til að mynda sjá bol til heiðurs brjóstamjólkurísnum Búbís sem vakti mikla athygli á Ísdeginum í Hveragerði í sumar. Hér er eldfjallsbolur og hér er bolur sem sýnir þegar fuglinn skeit upp í Ashley Young, leikmann Manchester United, á dögunum.

Spurður hvernig bolirnir seljast segist Árni vera aðalkaupandin sjálfur. „En það hafa nokkrir selst,“ segir hann. „Ég er í rauninni meira að gera þetta fyrir sjálfan mig og svo ef aðrir vilja kaupa þá er það fínt. Ég fæ einhverja einn til tvo dali fyrir hvern seldan bol í minn vasa. Þannig að ég er aldrei að fara að kaupa mér einbýlishús fyrir hagnaðinn.“

Auglýsing

læk

Instagram