Helga Gabríela um Mörtu Maríu: „Hún talaði niður til mín“

„Ég fékk myndir af Instagramsíðu vinkonu sem teknar voru af mér síðastliðið sumar og setti þær inná Instagramið mitt. Áður hafði ég sett myndirnar í „app“ í símanum mínum og dregið puttann til og grennt mittið. Einhver óprúttinn aðili tók skjámynd af þeim og sendi í netpósti til hinna ýmsu aðila, inná facebook síður, bloggmiðil og fjölmiðla.“

Þetta skrifar bloggarinn Helga Gabríeal á bloggi sínu í dag.

Umræddar myndir, sem Helga birtir með færslunni, gengu manna á milli á dögunum. Í færslunni rekur hún samskipti sín við blaðamanninn Mörtu Maríu, sem sér um Smartland á Mbl.is. Hún segir Mörtu hafa haft samband við sig í kjölfarið á því að myndunum var dreift og falast eftir viðtali.

Ég spurði hvort við gætum rætt saman í trúnaði og hún samþykkti það. Ég bað hana einlægt um að skrifa ekki um myndirnar, ég væri 23 ára og hefði gert mistök sem ég sæi eftir og væri búin að læra af því. Það myndi ekki þjóna neinum tilgangi fyrir hana, einungis koma mér illa. Hún bað mig um viðtal en ég neitaði. Hún talaði niður til mín og var ágeng í símanum og lét spurningar rigna yfir mig. Hún heyrði að ég var með kökkinn í hálsinum er ég höfðaði til samvisku hennar. Loks sagði hún: „Ég mun ekki birta þetta ef þú ert ósátt við það.“

Marta birti svo pistil í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins og daginn eftir á Mbl.is undir fyrirsögninni: „Fótósjoppar af sér Instagram-myndir …“

Þar spyr Marta á hvaða stað er fólk statt í lífinu þegar það er farið að fótósjoppa sjálft af sér myndirnar sem það deilir á samfélagsmiðlinum Instagram. Hún nafngreinir Helgu ekki en segist vorkenna „stúlkunni“. Marta lýkur pistlinum á því að segja að hún hefði pottþétt fótósjoppað sjálfa sig í drasl þegar hún var 23 ára:

Þegar ég hringdi í stúlkuna til að spyrja hana nánar út í þetta sagði hún að þetta hefði verið algert hugsunarleysi og hún skammaðist sín fyrir þetta og vildi alls ekki að alheimurinn vissi af þessu.

Helga segir að pistill Mörtu hafi verið skellur.

„Mér dauðbrá þar sem þetta var blásið upp úr öllu valdi. Ég átti að hafa notað photoshop forritið til að breyta mér. Mér leið illa vitandi að fólk væri að senda myndirnar á milli, dreifa á facebook og smjatta á þessu,“ skrifar hún og segir Mörtu fara með rangt mál í greininni:

„Og frásögn hennar er löguð til að henta slúðrinu. Í greininni skrifar Marta að hún hafi hringt í mig og gefur í skyn að þetta væri miklu meira en tvær myndir. Einnig vísar hún í það sem ég sagði við hana í trúnaði þrátt fyrir að lofa mér því að gera það ekki.“

Helga lýkur pistlinum á því að segjast hafa dregið lærdóm af þessu. „Ég hef áttað mig á að ég er sterkari en það að láta einhverja blaðakonu leggja mig í einelti og brjóta mig niður. Ég vona að sá sem tók myndirnar mínar upphaflega lesi þetta og hugsi sig um tvisvar áður en viðkomandi gerir þetta aftur.“

Auglýsing

læk

Instagram