Hér eru fimm fjöll sem þú verður að klára í sumar

Auglýsing

Fjöllin á Íslandi eru eins fjölbreytt og þau eru ótrúlega mörg og þess vegna er skemmtilegt að prófa að fara á mörg ólík. Hér er stungið upp á fimm fjöllum sem eru ólík en merkileg hvert á sinn hátt.

Þau eru öll í Wapp – Walking app sem er í Appstore og Playstore og þar eru ítarlegri leiðarlýsingar fyrir þessar og fjölmargar aðrar leiðir auk upplýsinga um vegalengd, hækkun, hæð og erfiðleikastig.

Notandi þarf að vera með reikning á Playstore eða iTunes til að geta hlaðið niður leiðum og þær kosta á bilinu 125-250 krónur og svo eru sumar ókeypis, en það þarf samt að „kaupa“ þær á sama hátt. Leiðinni er svo hlaðið inn á símann í Wifi og notuð offline á göngu.

 

1. Þyrill í Hvalfirði

Auglýsing

Þyrillinn er ekki hár en hann er gríðarlega fallegur. Gengið er frá bílastæði í nágrenni við afleggjarann inn Botnsdal og upp Síldarmannabrekkur og svo út með fjallinu. Gangan er á flestra færi, en ef það blæs mikið þá er vissara að fara ekki of nálægt brúninni. Útsýnið yfir Hvalfjörðinn af toppnum er ótrúlega fallegt og í Helguvík sést Geirshólmi vel og leiðin sem Helga synti forðum í land með syni sína tvo. Hún kom upp á land við ósa Bláskeggsár og fór svo upp Helguskarðið á Þyril og þaðan eftir Síldarmannagötum í Skorradal. Þannig bjargaði hún lífi sona sinna. Ganga á Þyrilinn er góð til upphitunar fyrir önnur og hærri fjöll.

2. Þorbjörn í Grindavík

thorbjorn

Þorbjarnarfellið lítur út fyrir að vera ósköp venjulegt fell en kemur mikið á óvart þegar fólk er komið upp. Gott er að fara upp hlíðina ofan við skógræktina og á toppnum er skál þar sem var lítil herstöð á stríðsárunum. Þarna má líka finna Þjófagjá og fróðlegt að kynna sér þjóðsöguna í tengslum við örnefnið. Útsýni er fallegt ofan af Þorbirni og sést vel hversu mikil uppbygging hefur verið í kringum Bláa lónið og að sama skapi má sjá hvað Grindavík hefur stækkað á síðustu árum þegar litið er í suðurátt. Það er flott að fara svo niður að sunnanverðu og með Reykjavegi að vestanverðu og aftur í skógræktina.

3. Kerhólakambur

kerholakambur

Mjög margir hafa farið upp að Steini og jafnvel alveg upp á Þverfellshornið og skrifað í gestabókina þar. Miklu færri hafa komið upp á Kerhólakamb sem er þó innan kílómeters fjarðlægð í vestur. Lagt er á litlu bílastæði austan við bæinn Esjuberg og lagt þaðan í uppgönguna. Á leiðinni má rifja upp mola úr Kjalnesingasögu en hún gerist að sumu leyti í kringum Esjuberg og í gilinu fyrir ofan. Af Kerhólakambi er gríðarlega gott útsýni yfir Sundin og má jafnvel halda áfram eftir brúninni í austurátt og fara svo niður aftur af Þverfellshorni og þá leið aftur niður

4. Súlur

Súlurnar eru réttnefndar bæjarfjall Akureyrar enda ber mikið á þeim rétt ofan byggðarinnar og Kjarnaskógar. Gangan er löng en alls ekki of brött og upplagt að nýta sumarið í að fara á fjallið. Á leiðinni má ímynda sér hvernig aðstæður hafa verið þegar danskur vísindaleiðangur kom árið 1899 til að rannsaka norðurljós á Súlunum. Byggður var kofi skammt frá toppnum og svo voru stundaðar rannsóknir um veturinn og málaðar myndir af ljósunum. Þóttu bæði myndir og niðurstöður rannsóknanna hinar merkilegustu. Gott útsýni er af toppnum yfir Eyjafjörð, Glerárdalinn, austur yfir Vaðlaheiði og víðar.

5. Þríhyrningur

thryhyrningur

Þríhyrningur er reisulegt fjall sem er áberandi á Suðurlandi og auðþekkt á þremur tindum þess. Tveir eru auðkleifir en sá þriðji og hæsti er erfiðari. Af toppnum má sjá til jökla, Heklu og inn til landsins og útsýni er gott til Vestmannaeyja. Andi Njálssögu svífur hér yfir vötnum enda er margoft minnst á Þríhyrning í þeirri sögu og er meðal annars gengið um Flosadal þar sem Flosi á Svínafelli og brennumenn földu sig eftir að hafa brennt Njál og fjölskyldu inni á Bergþórshvoli. Ganga á Þríhyrning að sumarlagi er við hæfi flestra í sæmilegu formi.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram