Hjalti mótmælir blaðamanni mbl.is og segir að grillmennska snúist ekki bara um að setja mat á grillið

Auglýsing

Hjalti Vignisson, forsprakki Grillsamfélags Íslands á Facebook, mótmælir því harðlega að grillmennska snúist aðeins um að koma matnum fyrir á grillinu og snúa honum við, líkt og Ingileif Friðriksdóttir, blaðamaður á mbl.is, heldur fram í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag.

Í pistlinum bendir Ingileif réttilega á að konur geti grillað eins og karlmenn. „Hættum að láta eins og grillið sé vígi karlmannsins, því ótrúlegt en satt þá geta konur líka grillað,“ segir meðal annars í pistli Ingileifar. Þar segir hún einnig að grillmennskan sé líklega einfaldasta eldamennskan.

Hjalti vakti athygli á pistlinum í Facebook-hópnum og segist í samtali við Nútímann alveg sammála Ingileif um að grillið spyrji ekki um kyn. Hann segir aftur á móti að einfaldasta eldamennskan sé að sjóða kartöflur og pylsur, það sé vel hægt að gera án þess að hugsa.

Þeir sem hafa gaman af því að grilla vita alveg hvað þetta getur verið flókið. Ef þú ert bara að snúa kjötinu tvisvar og síðan er það tilbúið, þá ert þú bara að elda, ekki að grilla.

Hann bendir á að það sé lítið mál sé að gera grillmennskuna þetta að einfaldri eldamennsku en þá sé það líka bara eldamennska. „Grill er líka ferlið að grilla,“ segir Hjalti og bætir við að þar komi meðal annars inn í gerð sósu og kryddolíu fyrir það sem fer á grillið.

Auglýsing

Sjálfur hefur Hjalti farið frá því að henda forkrydduðum kjötsneiðum á grillið, snúa þeim tvisvar og bera þær síðan á borð. Með tímanum hafi hann aftur á móti fengið mikinn áhuga á grillmennsku og notaði til að mynda 24 kíló af kolum á einum og hálfum mánuði eftir að hann keypti nýlega kolagrill.

Hjalti vann um þarsíðustu helgi árlega grillkeppni sem haldin er á bæjarhátíðinni Kótilettunni á Selfossi. Keppt er í tveimur flokkum og komast aðeins fjórir keppendur í hvorn flokk. Í öðrum flokknum er áhugafólk um grill en í hinum atvinnumenn og nemar og í þeim flokki var ein kona. „Það sýnir að þær kunna heldur betur að grilla,“ segir Hjalti.

Hér má sjá pistil Ingileifar

Sumarið; tíminn þegar sólin skín, grasið verður grænt og lyktin af grillmat leikur um loftið. Síðasta sumar fengum við unnusta mín grill í sameiginlega afmælisgjöf. Þegar ég segi grill er ég ekki að tala um eitthvert lítið, krúttlegt kolagrill heldur risavaxið gasgrill. Með grillinu fylgdi bók þar sem farið var yfir meginatriði þess að vera góður grillari. Bókin var hins vegar einungis stíluð á karlmenn, og þar var konum sagt að halda sig fjarri grillinu. Við unnusta mín litum undrandi hvort á aðra þegar við lásum bókina og íhuguðum að gefa drauminn um það að verða góðir grillarar upp á bátinn samstundis. Við erum augljóslega í röngu kyni fyrir þetta allt saman og til hvers þá að reyna? Eftir dágóða umhugsun ákváðum við að láta til leiðast og grilla eina máltíð. Ef allt færi fjandans til gætum við ennþá skilað grillinu.

Eftir gríðarlegan undirbúning, sem fólst í því að taka grillkjötið úr umbúðunum, kom að stóru stundinni og við kveiktum á grillinu. Það gekk stórfáfallalaust fyrir sig og þetta lofaði allt saman góðu. Þegar grillið var orðið hæfilega heitt komum við kjötinu varlega fyrir á því, búnar undir hið versta. Enn gerðist ekkert hræðilegt svo við leyfðum kjötinu að vera á grillinu í nokkra stund. Þá snerum við því við með þar til gerðri grilltöng og allt leit þetta vel út. Loks tókum við kjötið af grillinu þegar það leit út fyrir að vera tilbúið og snæddum það af bestu leyst. Eftir þessa miklu og krefjandi lífsreynslu ákváðum við að grillið væri hreint ekki svo slæmt. Það tók mun styttri tíma að elda mat á því en með öðrum leiðum, og við gátum staðið úti í sólínni í stað þess að húka inni í eldhúsi. Það sem meira var, við vorum búnar að komast að leyndarmálinu: karlmenn eru ekki þeir einu sem geta grillað.

Að öllu gamni slepptu þá hefur sú mýta að konur kunni ekki að grilla fengið að lifa fjári lengi. Hún hefur jafnvel laumað sér inn í huga margra kvenna, sem leyfa eiginmönnum sínum að sjá um grillmennskuna og halda því statt og stöðugt fram að þetta geti þær ekki. Verandi kona sem býr með konu og á grill er það óhjákvæmilegt að önnur hvor okkar, eða við báðar, tökum það okkur að grilla. Og til að vera alveg hreinskilin þá er grillmennska líklega einfaldasta eldamennskan. Hún snýst einungis um það að koma matnum fyrir á grillinu og snúa honum við. Hvers vegna það hefur í áranna rás þótt eitthvað sem karlmenn eiga að sjá um en konur eiga ekki að koma nálægt hef ég ekki hugmynd um. Það sem ég veit er hins vegar þetta: það skiptir ekki máli af hvaða kyni við erum – við getum gert nákvæmlega sömu hlutina. Hættum að láta eins og grillið sé vígi karlmannsins, því ótrúlegt en satt þá geta konur líka grillað.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Kjúklinga Alfredo Pizza

Spaghetti Carbonara

Instagram