Nútíminn hefur fengið leyfi til að birta mynd sem sýnir hjól sem hafa verið rifin í sundur í hjólalásum í miðborg Reykjavíkur. Myndin hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum og fólk lýsir yfir gremju sinni á því að borgin hafi ekki lengur stjórn á vandanum.
Einn notandi spurði:
„Er þá allt hreinsað af þeim í staðinn, dekk og fleira?“ Annar bætti við: „Þetta er nú ekki í lagi.“
Fleiri tóku undir og sögðu þetta lýsandi dæmi um ástandið í borginni.
„Hvað er að fólki?“ spurði ein kona, á meðan annar sagði: „Úff.“
Þriðji benti á að hjólin væru orðin „hræ“ eftir að þau hefðu staðið lengi, og annar bætti við að það væri kominn tími til að hætta notkun á svokölluðum quick release búnaði, sem gerir auðveldara að losa sæti og dekk án verkfæra.
Vaxandi þjófnaður á höfuðborgarsvæðinu
Þetta er ekki einstakt tilfelli. Undanfarin ár hefur hjólaþjófnuðum og smáglæpum almennt fjölgað í Reykjavík og nærliggjandi bæjarfélögum. Lögreglan hefur ítrekað varað við því að fólk skilji ekki hjól sín, rafskútur eða önnur farartæki eftir ólæst eða án eftirlits, jafnvel þótt þau séu í merktum borgarlásum líkt og þau sem sjást á ljósmyndinni sem fylgir þessari frétt.
Tilfinning þeirra sem Nútíminn hefur rætt við er sú að þjófnuðum hafi fjölgað gríðarlega. Sá sem hefur staðið í brúnni á þeim málum og aðstoðað Íslendinga við að finna meðal annars stolin reiðhjól er Bjartmar Leósson – sá hefur einmitt fengið viðurnefnið „hjólahvíslarinn“ fyrir vikið. Hann á hrós skilið að mati Nútímans enda hefur hann endurheimt reiðhjól fyrir milljónir króna á undanförnum árum. Hans tilfinning er sú sama og þeirra sem Nútíminn hefur rætt við – þjófnuðum hefur fjölgað og útlit er fyrir að þeim komi til með að fjölga jafnvel enn meir á næstunni.
Bjartmar telur að rekja megi þetta að einhverju leiti til þess að einstaklingar með fíknivanda fá ekki þá aðstoð sem þeir þurfa, þegar þeir þurfa en hjólaþjófnaðurinn er hluti af daglegu lífi þeirra til þess að fjármagna neysluna.
Ríkisstjórnin hafi sofið á verðinum
Aðrir spyrja sig hvað hafi eiginlega breyst í íslensku samfélagi. Landið hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum — íbúum hefur fjölgað verulega og samsetning samfélagsins hefur breyst. Reykjavík er orðin fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr og fjölgun erlendra ríkisborgara hefur verið hröð.
Margir segja einfaldlega að ríkisstjórn Íslands hafi sofnað á verðinum og að útlit sé fyrir að sama ástand skapist hér og hefur skapast í nágrannalöndum á borð við Svíþjóð.
Það er samt deginum ljósara að þessar breytingar hafa haft áhrif á samfélags „dýnamíkina“ og stjórnvöld hafa ekki fylgt nægilega vel eftir hinum aukna fjölda erlendra ríkisborgara með aðlögun, eftirliti og forvörnum.
Þá er einnig bent á að efnahagsástandið, húsnæðisvandi borgarinnar og almenn vantrú á kerfinu hafi skapað aðstæður þar sem smáglæpir blómstra. Á sama tíma er álag á meðferðarstofnunum gríðarlegt, sem þýðir að margir sem glíma við fíkn fá ekki þá aðstoð sem þeir þurfa.
Hvort sem um er að kenna breyttu samfélagi, skertu eftirliti eða álagi á meðferðarstofnunum, þá hefur þjófnaðartíðni í borginni rokið upp — og íbúar finna æ meira fyrir óöryggi.