Hlaut 60 daga dóm fyrir að nauðga dóttur sinni ítrekað, fleiri en 20 þúsund manns vilja dómarann frá störfum

Fleiri en tuttugu þúsund manns vilja að dómarinn John McKeon verði vikið frá störfum vegna dóms sem féll nýlega í máli manns sem nauðgaði tólf ára dóttur sinni ítrekað.

Keon dæmdi manninn til 60 daga fangelsisvistar. Haldi hann ekki skilorð og þær skuldbindingar sem hann þarf að standa við sem kynferðisbrotamaður þarf hann að afplána 35 ára langan dóm. Saksóknari hafði farið fram á 25 ára óskilorðsbundið fangelsi. Washington Post er meðal þeirra erlendu miðla sem fjallað hafa um málið.

„Það er kominn tími til að byrja að refsa dómurum sem leyfa þessum skrímslum að ganga frjáls um göturnar okkar,“ segir meðal annars í textanum sem fylgir undirskriftalistanum.

Sjá einnig: Brock Turner látinn laus eftir þrjá mánuði í fangelsi, nauðgaði rænulausri stúlku á lóð Stanford-háskóla

Dómarar tjá sig allajafna ekki þegar þeir sæta gagnrýni fyrir dóma sína. Keon hefur aftur á móti ákveðið að verja sig opinberlega. Í bréfi til AP-fréttastofunnar segist hann hafa nokkrar ástæður fyrir því að nýta refsirammann ekki betur.

Keon vísar í bréf sem hann fékk frá móður og ömmu fórnarlambsins en báðar fóru þær fram á að maðurinn yrði ekki dæmdur til fangelsisvistar. Móðir stúlkunnar, sem gekk inn á mann sinn nauðga dóttur þeirra, skrifaði að maðurinn ætti tvo syni sem elski hann og hún vilji að börnin hans fái tækifæri til að bæta sambandið við föður sinn.

Amma stúlkunnar tók í sama streng. Hún sagði hegðun mannins vera „hræðilega“ en sagði jafnframt að börn hans, sérstaklega synirnir tveir, yrðu eyðilagðir ef pabbi þeirra yrði ekki lengur hluti af lífi þeirra.

Keon hefur verið dómari í tuttugu og tvö ár. Hann fer á eftirlaun í næsta mánuði og mun því, hvort sem tekið verður tillit til undirskriftanna eða ekki, ekki starfa lengi til viðbótar.

Málið minnir á mál fyrrverandi Stanford-nemans Brock Turner sem nauðgaði rænulausri konu. Hámarksrefsing fyrir brotið er 14 ár en saksóknari fór fram á sex ára fangelsi í málinu.

Dómarinn Aaron Persky var gagnrýndur harðlega fyrir að nýta refsirammann ekki betur. Hann sagði meðal annars að hann hefði litið til þess að Turner hefði fengið góð meðmæli, að hann væri afreksmaður íþróttum og væri ekki á sakaskrá. Sagði hann einnig að fangelsisvist myndi hafa veruleg áhrif á hann.

Auglýsing

læk

Instagram