Hljómsveitin The XX er ekki komin með leyfi til að halda tónlistarhátíðina við Skógafoss

Breska hljómsveitin The XX er ekki komin með leyfi frá yfirvöldum til að halda tónlistarhátíð við Skógafoss. Þetta kemur fram á mbl.is.

Eins og Nútíminn greindi frá í dag þá stóð til að halda hátíðina 14. til 16. júlí en samkvæmt frétt mbl.is þá hafnaði héraðsnefnd Rangárvallasýslu umsókninni eftir fund í vikunni.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem viðburðir eru auglýstir áður en tilskilin leyfi liggja fyrir. „Þeir eru byrjaðir að auglýsa áður en þeir eru komnir með leyfi í hönd,“ segir hann.

Í fréttinni um málið í dag kom fram að The XX hátíðin hafi fengið nafnið Night + Day. Ásamt sveitinni átti fjöldi annarra listamanna að koma fram á hátíðinni, þar á meðal Mr. Silla, Kamasi Washinton, Högni, Earl Sweatshirt, Robyn og Mr. Tophat og Call Super.

Hljómsveitin greindi frá þessu á Facebook en aðdáendur hennar höfðu beðið spenntir eftir fréttum eftir að myndskeið af Skógarfossi var birt á síðunni í gær. Miðinn fyrir helgina átti að kosta 169 evrur, eða tæplega 20 þúsund íslenskar krónur. Fyrir það fá gestir aðgang að tónleikasvæðinu og gistingu á tjaldstæðinu.

Í færslunni segir að hljómsveitarmeðlimir The xx hafi fallið fyrir Íslandi þegar þau voru þar fyrir nokkrum árum og nú geti þau ekki beðið eftir að snúa aftur.

Auglýsing

læk

Instagram