Hross í oss fengið 10 milljónir í verðlaun

Hross í oss, kvikmynd Benedikts Erlingssonar, hefur hlotið fleiri en tuttugu verðlaun á kvikmyndahátíðum víða um heim. Verðlaunin hafa skilað henni yfir tíu milljónum króna í verðlaunafé — og hún á enn eftir að fara á nokkrar hátíðir. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Friðrik Þór Friðriksson staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið:

Hún hefur unnið til þó nokkurra verðlauna, ég hugsa að heildarverðlaunaféð hingað til sé yfir tíu milljónir en af því fáum við bara helminginn, því hinn helmingurinn fer til dreifingaraðila. Aðalatriðið er þó heiðurinn að fá að komast inn á hátíðir.

Hross í oss kemur til greina á Norrænu kvikmyndaverðlaununum en sigurvegarinn verður tilkynntur 23. október. „Svo komum við til greina á kvikmyndaverðlaunum Evrópu en íslenskum myndum hefur ekki gengið vel þar því þar er helst kosið eftir þjóðerni en það er samt sem áður heiður að komast þangað,“ segir Friðrik Þór.

Friðrik Þór bjóst við þessari velgengni um leið og hann sá myndina. „Benni er unglingur og rétt búinn að missa bleyjuna. Hans ævintýri er langstærsta ævintýri íslensks kvikmyndaleikstjóra, engin fyrsta mynd hefur notið svona rosalegrar velgengni,“ segir hann.

Hross í oss er enn í sýnd í Bíói Paradís.

Auglýsing

læk

Instagram