Hundaklónun Ólafs og Dorritar kostar um sex milljónir króna: „Ekki víst að þetta heppnist“

Hundur þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorritar Moussaieff verður að öllum líkindum fyrsti íslenski hundurinn til að verða klónaður. Ólafur Ragnar greindi frá því í Morgunkaffinu á Rás 2 um helgina að hjónin hefðu látið senda sýni úr hundinum Sámi til Texas þar sem hann verður klónaður.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um hundaklónið en þar segir að bandaríska fyrirtækið ViaGen Pets í Texas bjóði upp á hundaklónun fyrir um sex milljónir króna. Ólafur greindi frá því í Morgunkaffinu að einungis tvö fyrirtæki í heiminum klóni hunda og hjónin hafi ákveðið að velja fyrirtækið í Texas.

„Ég veit nú ekki hvort ég á að segja frá því hérna af því að ég hef nú ekki spurt um leyfi frá Dorrit til að segja frá því þannig að þið látið það ekki fara lengra. Sámur er orðinn nokkuð gamall, hann er orðinn 11 ára þannig að Dorrit ákvað að láta klóna hann. Það eru sem sagt tvö fyrirtæki í heiminum sem klóna hunda. Annað er í Texas og hitt er í Suður-Kóreu og það er sem sagt búið að því,“ sagði Ólafur.

Arn­ar Páls­son, pró­fess­or í lífupp­lýs­inga­fræði við Há­skóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að klónunarferlið sé kostnaðarsamt og ekki sé öruggt að það takist. Hann bendir þá á að klónið verði ekki nákvæmlega eins og Sámur heldur frekar eins og eineggja tvíburi hans. Arnar segist ekki vita til þess að íslenskt gæludýr hafi verið klónað áður og því verður Sámur væntanlega fyrstur.

Auglýsing

læk

Instagram