Á þriðja hundrað hafa þegar pantað nýjan iPhone á Íslandi

Fyrirtæki eru þegar byrjuð að bjóða upp á forpöntun á nýjum iPhone 6 og iPhone 6 Plus frá Apple. Á þriðja hundrað manns hafa þegar lagt inn pöntun en opnað var fyrir pantanir seint í gær.

Hjá Maclandi var opnað fyrir forpantanir klukkan 22 í gærkvöldi og samkvæmt Herði Ágústssyni framkvæmdastjóra hafa á annað hundrað manns þegar lagt inn pantanir hjá versluninni — þrátt fyrir að vita hvorki hvað síminn kostar endanlega eða hvenær hann verður afhentur. Hjá Símanum hafa einnig rétt á annað hundrað forpantað iPhone 6 eða 6 Plus á tæpum sólarhring.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans segist finna fyrir gríðarlegum áhuga.

Við sjáum rífandi áhuga á iPhone 6 Plus þótt fleiri virðist kjósa minna tækið, iPhone 6. Við hófum að taka við forpöntunum seinni partinn í gær. Áhuginn kom okkur ánægjulega á óvart, en þó ekki, því áhuginn var einnig svona mikill þegar við hófum að taka við forpöntunum á iPhone 5S og 5C í nóvember í fyrra. Það voru fyrst símarnir sem við hjá Símanum seldum milliliðalaust frá Apple.

Salan á iPhone 6 og 6 Plus hefst í Bretlandi 19. september. Einnig Bandaríkjunum, Kanada, Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og Hong Kong. Stefnir Apple á að selja símann í 115 löndum fyrir árslok.

Upplýsingar um forpantanir eru ekki opinberar hjá Vodafone. Nútíminn hafði einnig samband við Nova en þar er ekki hægt að forpanta iPhone. Ekki náðist samband við verslunina Epli nú í morgunsárið.

 

Auglýsing

læk

Instagram