Íbúðarhús í Stardal inn af Mosfellsdal eyðilagðist í eldi í morgun. Húsið var alelda og þakið fallið þegar Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu kom á vettvang á ellefta tímanum í morgun. Einn íbúi er skráður til heimilis í húsinu en hann var ekki á staðnum þegar eldurinn kom upp. RÚV.is greinir frá.
Staðan á húsinu þegar slökkviliðið kom á vettvang var mjög slæm. „Það var allt saman brunnið og mjög mikið skemmt. Við tókum ákvörðun um að nota ekki vatn til að slökkva restina af þessu,“ segir Stefnir Snorrason, aðstoðarvarðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í samtali við Rúv.
Slökkviliðsmenn sem komu á staðinn náðu að verja hús í nágrenninu og koma í veg fyrir að eldurinn breiddist út.