Vélfag-málið hefur nú formlega færst út fyrir landsteinana. Fyrirtækið og meirihlutaeigandi þess hafa lagt fram kvörtun hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í Brussel vegna meintra brota íslenska ríkisins á EES-rétti.
Í óvæntri vendingu hefur Vélfag jafnframt fengið til liðs við sig einn þekktasta sérfræðing Evrópu í Evrópurétti — Prof. Dr. Dr. Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins og manninn sem stýrði dómnum í ICESAVE-málinu.
Nú vinnur hann fyrir hönd Vélfags gegn íslenska ríkinu.
Vélfag á Akureyri á barmi gjaldþrots vegna ákvarðana utanríkisráðherra
ICESAVE-dómarinn ráðinn til að vinna gegn íslenska ríkinu
Tilkynnt var 29. október að Vélfag hefði óskað formlega eftir heimild frá utanríkisráðuneytinu til að ráða Baudenbacher sem lögmann sinn gegn ríkinu. Ráðuneytið hefur hingað til takmarkað samningsheimildir félagsins vegna frystingar.
Markmið ráðningarinnar er skýrt:
Hann fær umboð til að gæta hagsmuna Vélfags gagnvart ESA og, ef til kemur, EFTA-dómstólnum.
Vélfag segir í yfirlýsingu:
„Það er mikilvægt fyrir okkur að tryggja að barátta Vélfags fyrir rétti sínum sé rekin á alþjóðlegum grunni og í samræmi við Evrópurétt. Ráðning Dr. Baudenbacher myndi styrkja málstað okkar og tryggja að ferlið sé metið af óháðum og virtum sérfræðingum á sviði EES-löggjafar.“
Baudenbacher gegndi forsetaembætti EFTA-dómstólsins í 14 ár, þar á meðal þegar Ísland vann ICESAVE-málið árið 2013. Nú er hann að verja íslenskt fyrirtæki gegn íslenska ríkinu.
„Pólitísk tilraun til afturvirkra refsiaðgerða“
Samkvæmt kvörtun Vélfags, sem Nútíminn hefur undir höndum, fékk utanríkisráðuneytið nýlega ítarlegt lögfræðiálit frá einni virtustu lögmannsstofu Evrópu, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hefðu brotið fjölda EES-reglna.
Kærendur segja að í kjölfarið hafi ráðuneytið gripið til örvæntingarfulls neyðarúrræðis:
að beita sér fyrir því að meirihlutaeigandinn Ivan Kaufmann yrði afturvirkt settur á þvingunarlista ESB.
Slíkt væri fordæmalaust og hefði eflaust í för mér sér hátt pólitískt gjald. „Ef ESB myndi gera utanríkisráðherra, Þorgerði Katrínu, þann greiða að ljá þessu þvingunarbrölti hennar réttmæti með slíkum aðgerðum getur maður rétt ímyndað sér hvaða verð Ísland þyrfti að greiða fyrir það.“ sagði meirihlutaeigandi Vélfags, Ivan Kaufmann í stuttu spjalli við blaðamann Nútímans.
„Engar sannanir, samt frysting“ — og tveggja daga frestur
Í kvörtuninni kemur fram að:
-
engar sannanir liggi fyrir um tengsl Kaufmann við rússneska einstaklinga eða fyrirtæki á þvingunarlistum ESB.
-
tvær evrópskar ítarlegar bakgrunnsrannsóknir hafi staðfest engin slík tengsl.
-
ráðuneytið hafi fryst félagið án fullnægjandi sönnunargagna.
-
eiganda hafi verið bannað að taka sæti í stjórn.
-
og félaginu gert ómögulegt að taka þátt í eigin rekstri.
Í síðustu viku hafi ráðuneytið sent Vélfagi umfangsmiklar kröfur um gögn ásamt löngum lista af spurningum — en aðeins veitt tveggja daga frest til að svara.
„Þessi óraunhæfi frestur og spurningarnar sem eru spurðar eru fyrir mér í raun sönnun þess að ráðuneytið er ekki að vinna þetta í góðri trú, vitandi að þau hafi farið langt fram úr sér gegn Vélfagi í júlí síðastliðnum, þá eru þau nú að grípa í hvert hálmstrá í mikilli örvæntingu,“ segir Ivan Kaufmann.
80% fiskiflotans í hættu – „keðjuáhrif í sjávarklasanum“
Vélfag bendir enn og aftur á að aðgerðir stjórnvalda séu á góðri leið með að skrúfa algjörlega fyrir rekstur félagsins. Þar með gætu um 80% íslenska fiskiflotans misst aðgang að þjónustu, varahlutum og vélbúnaði til vinnslu afla.
„Íslenskt atvinnulíf gæti endað á að greiða hátt verð fyrir pólitískan metnað ráðherra,“ segir í kvörtuninni.
ESA fer af stað – fá mögulega hraðafgreiðslu
Vélfag óskar eftir því að ESA:
-
hefji formlegt samningsbrotamál.
-
beiti hraðmeðferð.
-
fyrirskipi íslenska ríkinu að stöðva þvingunaraðgerðir tafarlaust.
Ef ESA staðfestir brot er næsta skref málshöfðun fyrir EFTA-dómstólnum — sem Baudenbacher stýrði áður en hann tók nú sæti sem sækjandi á íslenska ríkið í máli sem á sér fáar hliðstæður. Segir hann þá málshöfðun einungis verða upphafið að málarekstri bæði í Brussel og Lúxembúrg þar sem íslenska ríkið verður látið axla ábyrgð á öllum brotum sínum gagnvart Vélfagi og eigendum þess.
Trúverðugleiki Íslands í húfi
Kæran leggur áherslu á að málið snúist ekki lengur aðeins um Vélfag, heldur um traust á íslenskri stjórnsýslu innan EES.
Ef ESA telur að íslenska ríkið hafi gengið of langt gæti það grafið undan stöðu landsins í Evrópusamstarfi — á sama tíma og Ísland leitast við að styrkja samskipti við ESB, halda áfram varnarsamstarfi og tryggja stöðugleika gagnvart óvissu í Evrópu og norðurslóðapólitík.