Ísland í tíunda sæti á lista yfir mestu skotvopnaeign almennings í heiminum

Ísland er í tíunda sæti á lista Small Arms Survey þegar tekið er saman hversu mörg skotvopn eru á hverja 100 íbúa. Á listanum eru teknar saman upplýsingar frá 230 löndum í heiminum og eru það Bandaríkin sem tróna á toppi listans. Þetta kemur fram á vef DV í dag.

Skýrsla Small Arms Survey sýnir að um 857 milljónir einstaklinga eigi skotvopn í 230 ríkjum. Þetta er 32 prósent hækkun frá árinu 2006 þegar slík rannsókn var síðast framkvæmd. Þá áttu um 650 milljónir einstaklinga í heiminum skotvopn.

Á Íslandi er 31,7 skotvopn á hverja 100 íbúa. Í Danmörku eru einungis 9,9 skotvopn á hverja 100 íbúa. Í Bandaríkjunum eru sögð vera 120 skotvopn á hverja 100 íbúa.

Jemen er í öðru sæti listans með tæplega 53 skotvopn á hverja 100 íbúa. Finnar eru í áttunda sæti með 32,4 skotvopn á hverja 100 íbúa. Í Japan er aðeins tæplega eitt skotvopn á hverja 100 íbúa.

Þegar tekið er saman skotvopn í heild sinni tróna Bandaríkjamenn einnig á toppnum. Þar eiga óbreyttir bandarískir borgarar 393 milljónir skotvopna en það er 32 prósentum meira en samantektin frá 2006 sýnir. Í Bandaríkjunum eru því talin vera 46 prósent af öllum skotvopnum sem óbreyttir borgarar um allan heim eiga.

Indverjar eru í öðru sæti á þessum lista en þar eru um 70 milljónir skotvopna og Kína er í því þriðja með 50 milljónir.

 

Auglýsing

læk

Instagram