Íslenski snúðurinn hefur slegið í gegn í íslensku bakaríi í bænum St. John’s á Nýfundnalandi í Kanada. Þetta kemur fram á mbl.is. Hjónin Haukur Leifur Hauksson og Aðalbjörg Sigurþórsdóttir opnuðu Volcano-bakaríið 11. ágúst en þau hafa búið í St. John’s síðastliðin þrjú ár.
Haukur segist í samtali við mbl.is hafa verið hræddur um að íslenska bakkelsið myndi ekki falla í kramið hjá bæjarbúum en áhyggjurnar reyndust ástæðulausar. „Við opnuðum bara dyrnar, það var ekki einu sinni búið að setja upp auglýsingaskilti en við fengum alveg rosalega góðan dag,“ segir hann á mbl.is.
Það spurðist bara einhvern veginn út í hverfinu. Síðan hefur bara verið rosalega gott að gera.
Volcano-bakaríið býður meðal annars upp á kleinur, vínarbrauð og snúða, sem hafa vakið mikla lukku. „Þeir eru meira í hvíta glassúrnum. Þeir eru mikið ragari við þennan brúna. Sumu breytir maður bara ekki hjá þeim. Maður verður bara að laga sig að því hvernig þeir vilja hafa hlutina,“ segir Haukur á mbl.is.